- Advertisement -

Tómas Þór reiður yfir ákvörðun KSÍ að spila gegn Saudí-Arabíu: ,,Þetta er versta þjóð heims í dag“

Í útvarpsþætti Fótbolta.net bar á góma þá ákvörðun Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns KSÍ, og sambandsins sjálfs, að þiggja boð um að spila æfingalandsleik gegn Saudí-Arabíu.

Eða eins og segir á heimasíðu KSÍ:

KSÍ hefur samið við Knattspyrnusamband Sádi-Arabíu um vináttuleik þjóðanna í A landsliðum karla. Leikurinn fer fram í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þann 6. nóvember næstkomandi.

Landslið Sádi-Arabíu, sem er í 49. sæti á styrkleikalista FIFA, hefur sex sinnum komist í lokakeppni HM og tíu sinnum í lokakeppni Asíumóts landsliða þar sem liðið hefur þrívegis fagnað Asíumeistaratitli (1984, 1988 og 1996).

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ísland og Sádi-Arabía hafa mæst fimm sinnum áður í A-landsliðum karla, síðast árið 2002. Ísland vann fyrstu viðureign liðanna, sem fram fór árið 1984, og í leikjunum síðan þá hefur Sádi-Arabía unnið tvo leiki og tvisvar hafa liðin gert jafntefli.

Fjölmiðlamaðurinn Tómas Þór Þórðarson sparaði ekki stóru orðin í þættinum og lét meðal annars þessi orð flakka:

,,Heyrðu við erum sem þjóð að fara taka virkan þátt í einum mesta íþrótta hvítþvotti heims þessa dagana og spilum við Sádí-Arabíu og enginn segir neitt? Er ekki allt í lagi eða?

Ég veit ekki alveg hvar maður á að byrja með þetta. Ég er ekki maður sem mætir á einhver mótmæli og hef ekki mikið fyrir mér í svona málum en ef ég væri yfir knattspyrnusambandi Íslands og hefði fengið boð um það að spila við Sádí-Arabíu í dag – annaðhvort svararðu ekki póstinum eða segir nei.“

Tómas segir einfaldlega að ,,Þetta er versta þjóð heims í dag, mannréttindi eru ekki til þarna, þeir koma fram við konur verr en hunda. Þetta eru menn sem stunda aflimanir á föstudögum. Hefur fólk hjá KSÍ aldrei séð sjónvarpsþátt eða lesið blað? Hvað er í gangi?,“ spyr Tómas Þór og bætir síðan þessu við:

Vanda Sigurgeirsdóttir

,,Vanda Sigurgeirsdóttir mætir þarna inn og tekur strax á mesta vandamálinu sem var þá í gangi, kynferðisbrot, og það sem var í gangi, það sem felldi Guðna og stjórnina og gerði það listavel.

Hún sýnir að það eru nýir tímar hjá KSÍ og við stöndum algjörlega með þolendum; tökum þetta regluverk alveg í gegn og gerum þetta almennilega. Við ætlum að vera nútíma knattspyrnusamband sem hugsar um þessi mál. En svo snýr hún þessu við og segir að KSÍ styðji ekki við kvenréttindi því við erum að fara spila leik við Sádí-Arabíu.“

Opinberar aftökur, eins og sjá má á þessari mynd, eru ekki óalgengar í Saudí-Arabíu.

Tómas Þór vill meina að Vanda ,,afsakar það með því að hún ætli að halda ræðu og taka í höndina á þeim og sýna að Ísland sé með formann og varaformann sem eru allar konur sem er besta mál. Aftur vil ég benda á það að þetta eru menn sem hafa myrt menn, og fullt af fólki. Þeir eru að stunda mesta ,,sports washing“ sem sést hefur í heiminum núna, bæði með að kaupa Newcastle United þar sem þeir komust í gegnum það.

Það stoppaði ekki mikið þar svo ég held að KSÍ sé ekki að fara stoppa mannréttindabrot þeirra mikið. Við erum að leggja gildin okkar hvað varðar almenn mannréttindi til hliðar því við höfum ekki efni á að spila við annað en Sádí-Arabíu. Í staðinn ætlum við að stara Sádana niður.

Ég hélt frekar að hún hefði fengið póst um að spila við Sádí-Arabíu og bara hlegið og sagt nei takk. Mér finnst þetta ótrúlegt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: