- Advertisement -

Tómas Magnús Tómasson

Einu ári of seint skipti ég úr Hagaskóla í Vogaskóla. Þrátt fyrir að hafa flutt í Ljósheima hélt ég áfram í Hagaskóla í þriðja bekk í gaggó. Síðasta árið lét ég undan og skipti, hóf nám í Vogaskóla.

Í Vogaskóla var hluti stundatöflunnar byggður á valfögum, við gátum ráðið sjálf hluta okkar náms. Ég varð að velja. Ein námsgrein freistaði mín meira en aðrar. Ekki síst þar sem kennslustundir voru það margar að ekki var ástæða til að velja neitt annað. Það var hægt að afgreiða málið með einni ákvörðun. Fylla kvótann. Ég merkti við leiklist.

Í fyrsta tímanum kom kennarinn okkar, Jón Símon Gunnarsson, ungur og brosmildur maður, og við vorum nokkuð mörg sem höfðum valið okkur leiklistina. Ég þekkti ekkert hinna, enda nýliði í skólanum. Undra fljótt kynntist ég hinum krökkunum og síðar í lífinu átti ég eftir að eiga nokkur samskipti við einn strákana, síðar í lífinu. Sá var Tómas Magnús Tómasson.

Leiklistanámið okkar var skemmtilegt. Það var mikið hlegið og við hittumst mikið oftar en stundataflan sagði til um. Við réðumst í að skrifa okkar eigið leikrit þar sem persónurnar voru sóttar í skólastjórnendur og kennara Vogaskóla. Óafvitandi særðum við tvo kennara og svo fór að leikritið okkar var aldrei sýnt.

Mér var falið að leika aðalhutverkið, Helga Þorláksson skólastjóra. Helgi var mikill söngmaður og svo fór að Tommi samdi lag við ljóð eftir Sigurð Valgeirsson. Ég held að ég muni enn tvo erindi af þremur:

Lömbin leika um haga

og litlu folöldin.

Dapur dreymi um gamla daga

ég dyl ei söknuð minn.

 

Ég minnist æsku minnar

malpokann ég ber við hönd.

Ég reika með rjóðar kinnar

og reisi mér draumalönd.

Jæja, handritið var skrifað og mér var falið að syngja hið fína lag við vel ort ljóð Sigurðar. Ég tilkynnti að ég væri fullkomlega laglaus. „Það er enginn laglaus,“ sögðu þeir Jón Símon og Tommi nánast einum rómi.

Allt í lagi, sagði ég. Tommi settist við píanóið og tók að leika lagið sitt. Ég hóf sönginn og var ekki búinn með margar línur þegar Tommi sagði, jú það er einn laglaus.

Svo fór að öllum, það er öðrum en mér, þótti fínasta mál að laglaus leikari myndi syngja í nafni Helga Þorlákssonar. Það var þrekraun fyrir mig, fyrir Tomma á píanóinu  og alla aðra að komast í gegnum „söngæfingarnar“.

Saga okkar krakkana og Jóns Símonar var skemmtileg.

Svo fór hvert sína leið. Ég fór til sjós. Tommi fór í hljómsveitina Rifsberju, muni ég rétt. Við hittumst samt of í Teiti, sjoppu hverfisins og síðar á öðrum stöðum.

Það var svo löngu seinna, þegar ég lifði millikafla í mínu lífi, að við bjuggum í sama húsi, grænu húsi við Laugaveg. Hann á fyrstu hæð og ég þriðju. Af og til, stundum oft, héldum við óformlega „húsfundi“. Þá var skyggni ekki alltaf gott. Margt var sagt í þokunni sem við skópum. Það var mikið hlegið enda var húsráðandinn landsþekktur sagnamaður og húmoristi.

Stundum sátum við saman á Vitabar. Þar var Tommi oftast í aðalhlutverki með sína fínu frásagnargáfu og skemmtilegheit.

Nú er hann genginn og eftir eru ótrúlega mörg og fögur verk hans. Tómas Magnús skilur eftir sig stór spor sem seint eða aldrei mun fenna í.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: