„Frá árinu 2013 hefur fjölskyldunum fækkað um 12.000 sem njóta stuðnings barnabótakerfisins,“ segir Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Hún segir að í fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar sé ekki að finna að það eigi að styrkja barnabótakerfið. „Jöfnuður og jafnrétti er undirstaða hagsældar,“ sagði hún og benti á að Katrín Jakobsdóttir hafi margtoft bent á það sama í ræðustól Alþingis.
„Ég tel það vera pólitíska ákvörðun að nýta jöfnunartækin sem eru barnabætur, húsnæðisstuðningur og hærri persónuafsláttur. Þetta eru þekktar staðreyndir. Verkalýðsfélögin hafa kallað eftir þessu og það er einungis pólitísk ákvörðun sem þarf að taka til að nýta þessi tæki. Það er ekki að sjá að það eigi að taka þessa pólitísku ákvörðun í fjármálaáætluninni eða á þessu kjörtímabili,“ segir Oddný.