Tólf milljarðar í spilakassana
„Er eðlilegt að Rauði kross Íslands, Landsbjörg, SÁÁ, og Háskóli Íslands séu drifin áfram af spilakössum? Nú er komið í ljós að meðan kassarnir voru lokaðir stórbatnaði hagur spilafíkla,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins á Alþingi.
„Það eru örfáir einstaklingar sem halda öllu þessu uppi, um 10–12 milljörðum og af því eru ekki nema 40–50% gróði, hitt er allt kostnaður sem fer til útlanda.“
Bjarni Benediktsson var til svara: „Varðandi spilakassana er það hárrétt hjá háttvirtum þingmanni að það er algjör hörmung hversu margir þurfa að glíma við spilafíkn. Það er alveg gild spurning hversu stór þáttur í vanda þeirra opnu spilakassarnir eru.“
Guðmundur Ingi spurði: „Er ekki eðlilegt að ríkissjóður semji við þessa aðila og sjái til þess að úr ríkissjóði komi greiðslur frekar en að gera út á örfáa fíkla sem leggja allt undir, m.a. heimili, og eru þar af leiðandi berskjaldaðir og eiga ekki á nokkurn hátt að láta svona félög, sem eru nauðsynleg, verða háð spilafíklum sem halda þeim uppi?“
Bjarni: „Þar er stóra spurningin: Hvert annað leita spilafíklar ef ekki í spilakassana?“
Hann sagði Guðmund Inga benda á að alls konar góðgerðasamtök og aðrir aðilar sem vinna að brýnum samfélagslegum verkefnum skuli fjármagna sig með þessum hætti. „Þá er auðvelt að benda á ýmislegt annað sem er á jaðri spilakassanna, happdrætti og lottó og hvað þetta allt saman er. Ég er talsmaður þess að við lokum ekki með öllu á þetta en spilakassarnir eru svo sem ekki þannig úr garði gerðir að ég ætli að fara að mæla þeim sérstaklega bót. Við þurfum að finna einhvern eðlilegan meðalveg í þessum efnum.“