Mannlíf

Tók til við að stanga úr tönnunum

By Ritstjórn

July 21, 2020

Sveinseyrarpóstur Sigurðar G. Tómassonar:

Prestur í litlu plássi úti á landi var víðfrægur ræðumaður. Sérstaklega var hann kunnur fyrir hjartnæmar líkræður. Einhverntíma í jarðarför flutti hann minningarorð svo ekki var þurr hvarmur í kirkjunni. Að þeim loknum, meðan kórinn söng Blessuð sértu sveitin mín, og söfnuðurinn grét settist hann til hliðar, krosslagði fætur undir hempunni — og tók til við að stanga úr tönnunum.

Skruppum í gær í erindi. Þegar við komum til baka og ókum inn trjágöngin að Sveinseyri litum við hvort á annað. Nánast blæjalogn, blómstrandi plöntur um allt, höfugur ilmur í lofti. Hvílíkur dásemdar unaðsreitur! Hvaða lukkunnar pamfílar skyldu nú búa hér?

Þegar við, á Jarðkönnunardeild Orkustofnunar, hófum rannsóknir á köldu vatni fyrir Hitaveitu Suðurnesja voru ekki mikil gögn til um kalda vatnið. Þorleifur Einarsson benti fyrstur á að ferska grunnvatnið flyti ofan á sjó en ekki var vitað nóg um þykkt lagsins og rennsli. Rannsóknir beindust því meðal annars að þykkt lagsins, þótt hæð yfir sjávarmáli gæfi vísbendingar. Í því skyni mældum við leiðni í vatninu eins djúpt og hægt var. Heimir Sigurðsson hannaði og smíðaði mælitæki fyrir þetta. Mælikólfi sem hékk í kvörðuðum jöklavír var sökkt, oftast í borholu en stundum í gjár. Þegar við vorum búnir að mæla um hríð endurbætti Heimir tækið. Endurbæturnar voru góðar en ég skammaði hinn góða hönnuð Heimi fyrir. Mér fannst nefnilega löng mæliröð mikilvægari en absolút gæði tækja. Þennan skilning finnst mér stundum vanta hjá ungum sérfræðingum. Til dæmis þegar talað er um hækkun lands á Reykjanesskaga og skýringar á henni.