- Advertisement -

Tók lán án þess að vita af því

Ótrúlegum blekkingum var beitt. Lögreglan rannsakar framgöngu smálánafyrirtækis.

„Neytendasamtökin hafa fengið á sitt borð mál þar sem maður var beðinn um að millifæra pening á gamlan vin en á einhvern óskiljanlegan hátt endar á að taka smálán,“ segir á vef Neytendsamtakanna.

Þar segir frá manni sem fékk skilaboð seint um nótt þar sem gamall kunningi hans sagðist vera í vandræðum. „Kunninginn segist vera í útlöndum og bíði eftir millifærslu frá kærustunni en vegna einhverra tæknivandamála berist millifærslan ekki. Hann spyr því hvort kærastan megi millifæra 100.000 kr á manninn sem hann síðan millifæri á kunningjann. Maðurinn var heldur tregur til en samþykkti að lokum og gefur upp kennitölu og reikningsnúmer. Smálánið birtist síðan inni á heimabanka einstaklingsins án skýringar í nokkrum færslum og millifærði maðurinn strax  fjárhæðina á kunningjann. Það var síðan daginn eftir sem heimabanki þessa einstaklings fylltist af greiðsluseðlum frá öllum fimm smálánafyrirtækjunum sem starfa hér á landi og honum varð ljóst að þessi gamli kunningi hans hafi tekið smálán í hans nafni og platað hann til þess að millifæra andvirði þess yfir á sig.“

Þetta mál er komið í opinbera sakamálarannsókn.

„Það er algerlega óásættanlegt að hægt sé að taka smálán í nafni annars aðila og það með einungis kennitölu og reikningsnúmer að vopni,“ segir á ns.is. „Umræddur einstaklingur samþykkti aldrei skilmála fyrirtækisins og fyrirtækið hafði ekki fyrir því að ganga úr skugga um að réttur einstaklingur væri að taka lánið, t.d. með rafrænum skilríkjum eða annarri aðferð. Vandséð er því að hægt sé að krefjast greiðslu frá þessum aðila, sem raunverulega tók aldrei lán heldur einungis millifærði andvirði þess áfram – grunlaus um svikin sem hann hafði orðið fyrir.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: