Álfheiður Eymarsdóttir, varaþingmaður Pírata, lagði nokkrar spurningar fyrir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
Fyrsta spurning var svona: „Hefur ráðuneytið gert úttekt á hagkvæmni þess að auka hlut umhverfisvænni veiða en togveiða, svo sem strandveiða, krókaveiða og línuveiða, í ljósi þess að íbúar vestrænna þjóða kjósa af umhverfisverndarástæðum að kaupa annan fisk en togarafisk? Ef svo er, hverjar voru niðurstöður úttektarinnar?“
Í svarinu segir þetta meðal annars: „Togveiðar sem geta haft neikvæð áhrif á botndýr eru taldar vistvænni hvað varðar meðafla sjávarspendýra og fugla en t.d. línuveiðar og netaveiðar. Mismunandi veiðarfæri hafa síðan ólík áhrif á stærðardreifingu fiskstofna, þ.e. hvaða stærð fiska hvert þeirra veiðir helst og síðan hafa sum náttúruverndarsamtök beitt sér gegn fiskveiðum á króka út frá dýraverndarsjónarmiðum. Allir þessir þættir ásamt fleiri koma til tals á alþjóðamörkuðum þegar rætt er um hversu vistvænar sjávarafurðir eru. Á vegum ráðuneytisins hefur ekki farið fram sérstök heildstæð úttekt á umhverfisáhrifum mismunandi veiðarfæra og hagkvæmni sem tekur yfir alla þá þætti sem að framan greinir sem og aðra umhverfisþætti og hagræna þætti sem máli gætu skipt í því samhengi. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að slík heildarúttekt hafi verið gerð annars staðar, en bendir á að vottunarfyrirtækin framkvæma athuganir sem þó eru oftast bundnar við veiðar á einum stofni.“