- Advertisement -

Togstreitan er á milli þeirra sem eiga allt og þeirra sem vilja jöfnuð

Fólkið í Eflingu, mynd og texti: Alda Lóa.

„Ég hef unnið hérna á Búllunni í eitt og hálft ár, steiki hamborgara og er smá í öllu. Vaktarprógrammið mitt er 3-2-2 frá hálf tólf fyrir hádegi til tíu á kvöldin. Eftir vakt geri ég lítið annað en að taka strætó heim en sumir af strákunum hérna fara í ræktina eftir kvöldvakt sem mér finnst ekki freistandi. Á frídögum fer ég með vinkonu minni í Bogfimisetrið eða við gerum eitthvað skemmtilegt eins og að spila hlutverkaleikinn Drekar og Dýflissur.

Ég skila af mér 100 prósent vinnu en ég hef minnkað við mig síðan í fyrra þegar ég vann 140 prósent og vann ásamt steikingunum á frístundaheimili. Ég reyndi að leigja, vinna og vera í skóla í tölvunarfræði en ég fór til baka. Byrjaði á því að hætta að leigja og síðan hvíla mig á skólanum og einbeiti mér núna að bara einni vinnu. Ég hef getað lifað á þessu hingað til. Ég bý heima hjá fjölskyldunni minni í Grafarholti. Til átta ára aldurs bjó ég í 101 og síðan í 108 og núna bý ég í 113, má segja að ég hafi fikrað mig áfram með fram Miklubrautinni upp í Grafarholt.

Mér finnst mjög gaman að vinna með mat og gott að vinna með höndunum. Ég hef áður unnið með mat og mér finnst matreiðsla alltaf hafa tilgang af því ég er að gera eitthvað fyrir fólk sem það setur ofan í sig. Í dag hefur fólk mikið úrval og það er ánægjulegt að fólk kjósi að koma hingað og fá borgarann minn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í samfélaginu er togstreita, kalt stétta stríð. Togstreitan er á milli þeirra sem eiga allt og þeirra sem vilja jöfnuð. Það er stétt hérna sem á allt og stjórnar öllu og hinir sem borga brúsann eru lokaðir í sínum eigin vandamálum og margir fylgjast ekki með því sem er að gerast í samfélaginu.

Svo eru aðrir sem nenna ekki að hlusta á ískrið, taka kannski eitt próf á netinu fyrir kosningar, en taka ekki upplýstar ákvarðanir eins og vinkona mín sem tók eitt netpróf með kærastanum sínum og niðurstaðan var sú sem kærastinn hafði kosið frá því að hann var 18 ára og pabbi hans hafði sagt honum að kjósa. Hvar er hugsunin og hvar er sjálfstæðið þar?

Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvað við berum mikla ábyrgð fyrir hvort öðru. Við erum öll börnin í þorpinu. Allir Íslendingar þurfa að komast að því að hver einasta manneskja í samfélaginu er með óborgað hlutastarf sem pólitíkus, það er borgarleg skylda okkar að taka þátt og fylgjast með þeim sem fara með völdin.

Mín kynslóð þessi svokallaða netkynslóð kynntist tækninni þegar þetta var allt svo nýtt en líka allt miklu hægara. Mér finnst kynslóðin á eftir sem fékk netið í símanum með feisbúkk og instagram í vöggugjöf vera tengdari samfélaginu og vera kærleiksríkar og með ríkari samkennd. Mér líður eins og það séu fleiri góð egg en slæm í þeirri körfu. Það er svo ótrúlega mikið í boði á netinu og þú getur aflað þér upplýsinga um allt en auðvitað er auðvelt að lokast inni á þröngu svæði og heyra alltaf sömu möntruna. Ég reyni að forðast það og flakka á milli miðla af því ég vil heyra allir raddir samfélagsins.

Gestir okkar eru launaðir þrælar, það er ömurlegt hvernig við förum með innflytjendur á vinnumarkaðnum. Hvað varð um hinn mikla höfðingjaskap sem sagt var frá í Íslendingasögunum. Á meðan blaðafrétt af Pólverja sem lamdi konuna sína vakti því líka athygli og hneykslun landans í kommentakerfinu þá var önnur frétt í sama blaði af 19 íslenskum konum með börn sem flúðu heimili sín yfir jólahátíðirnar og sú frétt fékk engin viðbrögð.

Ég horfi meira og meira til stéttarfélaganna sem mér finnst núna vera að tala til verkafólksins. Áður en Ragnar og Sólveig komu þá voru stéttarfélögin frekar að tala máli fyrirtækjanna og síður máli starfsmanna fyrirtækjanna allavega frá mínum bæjardyrum séð. Mér finnst að verkalýðsfélögin eigi að vera pólitískar stofnanir, vinna fyrir okkur verkafólkið og vera þessi „counterbalance“ á stjórnvöld.

Mér fannst spillingin á Íslandi koma í ljós í Sjómannafélaginu um daginn, hvernig þetta virkar hérna, einhver karlremba sem var með allt í rassvasanum. Hérna er mikil spilling sem á eftir að uppræta en þetta er samt skárra en fyrir 20 árum. Þetta þokast áfram en þetta er eins og að færa fjall, stundum finnst manni þetta ganga allt of hægt. Hérna eru engin útboð allt fer í vasann hjá vinum og vandamönnum og mér fannst fáránlegt hvernig Katrín svaraði fyrir Glitnis viðskiptin hans Bjarna að hann hafði starfað innan lagarammans af því að það voru ekki til lög til um svona viðskipti. En hann var beggja vegna borðsins og þetta var alveg siðlaust.

Þetta endar örugglega eins og í Frakklandi að fólk fer út á götur. Ég verð allavega reiðari með hverjum deginum. Þessi stjórnvöld sem hækka launin sín og halda síðan launum niðri hjá flestum okkar og ljúga því að launþegar hafi það gott á Íslandi. Þeim finnst sjálfsagt að rangtúlka tölfræðina, auðvitað hækka þessi 10 prósent sem eru með ofurlaun meðaltalið og það kæmi mér ekki á óvart að hálf þjóðin lifi undir framfærsluviðmiðum.“

Sturla Freyr Magnússon er vaktstjóri á Búllunni og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflingu Sjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: