„Enn eitt gæluverkefnið. 3 milljarðar í verkefnaklasa í tengslum við stafrænar umbreytingar núna og áætlað er að setja eigi 10 milljarða samtals í verkefnið. Þessum verkefnum á að útvista úr borgarrekstrinum. Reykjavíkurborg er ekki og getur aldrei verið hugbúnaðarfyrirtæki. Eru þetta áherslurnar í taprekstri borgarinnar og skuldasöfnun? Reykjavíkurborg getur ekki haldið uppi lögbundinni þjónustu né grunnþjónustu. Viðhald fasteigna er í molum. Þá er farið í svona bull, vitleysu og firru. Þessu fólki sem stjórnar Reykjavíkurborg er ekki viðbjargandi,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir á borgarráðsfundi.
Eyþór Arnalds og hans fólk hafði áður bókað:
„Nauðsynlegt er að ráðast í stafræna þróun á þjónustu borgarinnar. Fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar gerir hins vegar ráð fyrir 10 milljarða fjárfestingu til verkefnisins á næstu árum, án þess þó að skilgreina til enda hvernig sú fjárhæð er áætluð. Grunnforsenda stafrænnar þróunar verður annars vegar að vera betri þjónusta við íbúa en hins vegar aukin hagræðing innan borgarkerfisins. Nú er ljóst að verkefnið mun kalla á 60-80 ný stöðugildi, tækifæri til útvistunar virðast vannýtt og hagræðing hefur ekki verið skilgreind. Þess þarf að gæta að stafræna þróunin breytist ekki í stefnulaust rekald.“
Meirihlutafólkið bókaði:
„Sú stafræna umbreyting sem nú er lagt af stað með á ekki að koma kjörnum fulltrúum á óvart sú enda var hún samþykkt í fjárfestingaráætlun borgarinnar í desember sl. Eins og fram kemur er verið hraða stafrænni umbreytingu í þjónustu borgarinnar um fjöldamörg ár með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa. Liggur fyrir að þessi stafræna vegferð mun kalla á um 60-80 ársverk sem mun skiptast í aðkeypta þjónustu og tímabundin stöðugildi. Hér er um að ræða fjárfestingu sem mun spara mikið til lengri tíma eins og verkefni sem þegar hafa verið unnin hafa sýnt. Þjónustuþörfin er stanslaust að aukast og til að fletja út kúrfuna á aukinni þörf á fjölgun starfa er hægt að mæta aðstæðunum með nútímavæðingu þjónustu og stafrænni umbreytingu um leið og þetta leiðir til betri þjónustu sem er aðgengilegri, hagkvæmari og umhverfisvænni.“