Fréttir

Tími launahækkana er liðinn

By Miðjan

October 20, 2023

Þórdís K.R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra fer bratt af stað í nýja starfinu. Hún sagði á Alþingi að tími launahækkana sé liðinn og að ekki hafi verið innistæða fyrir þeim launahækkunum sem hefur verið samið um á síðustu árum.

Þetta sagði ráðherrann á Alþingi:

„Það má spyrja hvort það hafi verið innistæða fyrir þeim launahækkunum sem við höfum séð undanfarin ár. Ég held að svarið við því sé augljóslega nei. Við sem samfélag höfum komist upp með miklar launahækkanir í töluverðan tíma en nú er sá tími liðinn. Ef við meinum það þegar við segjum að við viljum tryggja stöðugleika og tryggja það að fjölskyldur geti greitt af sínum lánum og haldið í sína stöðu þá munu launahækkanir ekki leysa það með krónutölu heldur því að ná tökum á verðbólgu þannig að vaxtastigið lækki.“

Það er og. Ráðherrann hefur kastað boltanum. Nú er að bíða viðbragða héðan og þaðan. Fullyrðingar ÞórdísarK.R. létta eflaust ekki lund þess fólks sem þarf að ná að gera og klára kjarasamninga snemma á næsta ári. Fer svo að fólk eigi eftir að sakna Bjarna Ben?