Tími aðgerða runninn upp
Búið er að greina vandann, ræða hann og kryfja til mergjar. Boltinn er hjá stjórnvöldum og kominn tími til að þau sýni vilja sinn í verki og taki á þessu augljósa óréttlæti.
Fyrir ári birti hagdeild Alþýðusambandsins skýrslu um þróun á skattbyrði launafólks á síðastliðnum tveimur áratugum. Niðurstöður þeirrar úttektar voru í meginatriðum þær að skattbyrði launafólks hefur aukist í öllum tekjuhópum á tímabilinu en aukningin er langmest hjá þeim tekjulægstu.
Þegar samspil tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta er skoðað hefur munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri minnkað og verulega dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins.
Þetta hefur einkum gerst vegna þess að skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun á sama tíma og vaxta- og barnbætur, sem eru mikilvæg tekjujöfnunartæki, hafa verið vanræktar og markvisst dregið úr hlutverki þeirra við að jafna kjör.
Niðurstaðan af þessu er sú að kaupmáttaraukning síðustu ára hefur síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði. Þannig hafa stjórnvöld með áherslum sínum í skattamálum unnið gegn áherslu verkalýðshreyfingarinnar á sérstaka hækkun lægstu launa í kjarasamningum og tekið til sín stóran hluta þeirra kjarabóta sem samið hefur um. Það þarf því ekki að koma sérstaklega á óvart að krafa sé um endurskoðun á skattkerfinu innan verkalýðshreyfingarinnar.
Stjórnmálamenn úr flestum flokkum tóku undir áhyggjur af þróuninni í aðdraganda kosninga sl. haust og lýstu vilja sínum til breytinga. Undanfarið ár hefur verkalýðshreyfingin ítrekað bent á að það sé grundvallaratriði að snúa þessari þróun við ef takast á að ná sátt á vinnumarkaði. Búið er að greina vandann, ræða hann og kryfja til mergjar. Tími aðgerða er runninn upp. Boltinn er hjá stjórnvöldum og kominn tími til að þau sýni vilja sinn í verki og taki á þessu augljósa óréttlæti.
Grein af asi.is.