Niðurstaðan sem varð á formannafundi ASÍ, um að segja ekki upp kjarasamningum, var val um dagsetningu til að fara í endurnýjun gildandi kjarasamninga. Það má líka halda því til haga að þó svo að niðurstaða ASÍ hefði verið að segja upp samningum, þá hefði SA getað vísað ágreiningum um forsendubrest í Félagsdóm. Þar hefði niðurstaðan hugsanlega orðið sú að forsendur stæðust og því ekki hægt að segja samningum upp.
Það vita allir að ákveðið uppgjör mun eiga sér stað í samfélaginu við endurnýjun þeirra kjarasamninga sem renna út í lok árs. Meira félagslegt réttlæti verður að nást í samfélaginu.
Hjá VM var það niðurstaða fulltrúaráðs félagsins að núna væri ekki rétta tímasetningin.
Þetta var lýðræðisleg niðurstaða hjá okkur. Þetta var líka lýðræðisleg niðurstaða á formannafundi ASÍ, og eins og ég sagði þar, þá mun VM ekki láta sitt eftir liggja við að taka þátt í vegferðinni, ef niðurstaðan yrði sú að samningum yrði sagt upp. Við höfum burðina með sterkan verkfallssjóð á bak við kröfur okkar, sem viðsemjendur okkar verða að taka alvarlega.
Við fórum í þá vegferð sem rammasamkomulagið gekk út á og nú er það í okkar höndum að velja okkur leiðina sem við viljum fara inn í nýjan kjarasamning. Nú þegar þessi niðurstaða liggur fyrir bíður okkar ærið verkefni næstu mánuði að móta kröfur okkar og velta fyrir okkur því landslagi sem er innan verkalýðshreyfingarinnar. Með hverjum getum við unnið? Eru sambönd eða félög að fara saman? Hugsanleg gæti niðurstaða okkar orðið sú að okkar kröfur samrýmist ekki hugmyndafræði annarra. VM mun þá láta á það reyna að fara fram eitt sér og á eigin forsendum.
Reynsla VM af samfloti með öðrum félögum í kjaraviðræðum er ekki góð. Það kom flótti í hópinn hjá iðnaðarmönnum á ögurstundu árið 2015. Við lögðum af stað með tveimur einingum háseta í verkfallsaðgerðir við endurnýjun kjarasamninga SFS. Þegar deilan harðnaði vissum við ekki hver var talsmaður þeirra í viðræðunum og við vorum komnir með fjóra eða fimm talsmenn sem töluðu hver í sína áttina. Við höfðum ekki möguleika að ná yfirsýn yfir samstarfið. Við erum reynslunni ríkari og eigum því ekki að þurfa að brenna okkur á svona hlutum aftur. Svona samstarf verður að móta strax og setja skuldbindingar á alla sem að því koma.
VM munum kalla saman samninganefndir okkar sem fyrst og fullmanna þær. Við verðum að vera búin að leggja ákveðnar línur fyrir sumarið þannig að við verðum strax eftir sumarið tilbúnir í alla þá vinnu sem væntanlega fer af stað, í hvað farvegi sem það verður.
VM er með mjög skýra framtíðarsýn og áherslur og mun í þessari atrennu standa fast á kröfum um þær breytingar sem félagið vill ná fram.
Ef það er vilji félagsmann að fara af fullum þunga fram með okkar kröfur, munu það væntanleg framkalla átök og verkföll. Við þurfum að vera búin að ná upp breiðri samstöðu til að fara í þá vegferð. Hvernig til tekst er undir félagsmönnum komið, allir verða að leggjast á árarnar.
Ég er tilbúinn í þessa vegferð en þá verða félagsmenn líka að verða virkir í öllu því ferli sem framundan er. Samninganefndin ein hefur ekki burði til að standa á sínu, ef baklandið ætlar ekki að styðja hana af fullum þunga. Mín skoðun hefur alltaf verið sú að öflugur verkfallssjóður og fjárhaglega sterkt fagfélag eins og VM, ætti að fá viðsemjendur til að taka okkur alvarlega, vitandi það að við getum og erum tilbúin til að taka slaginn.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.