Fréttir

Tímabært að TR sýni skilning á aðstæðum skjólstæðinga sinna

By Aðsendar greinar

December 15, 2020

Öryrkjabandalagið: „Það veldur stjórn ÖBÍ miklum vonbrigðum að enn á ný þurfi umboðsmaður Alþingis að grípa inn í harkaleg vinnubrögð Tryggingastofnunar og benda henni á það hlutverk sitt að hafa hagsmuni skjólstæðinga sinna að leiðarljósi. Sorglegast er þó að tilefnið að þessu sinni hafi verið svo vægðarlausar innheimtuaðgerðir, að heimili viðkomandi var selt nauðungarsölu. Og afraksturinn 65.000 krónur. Það þykir ÖBÍ langt seilst fyrir lítið, gagnvart einstaklingi í neyð.

Umboðsmaður telur einnig tilefni til að árétta enn á ný ríkari leiðbeiningaskyldu Tryggingastofnunar og varfærni gagnvart viðskiptavinum hennar. 

Þrátt fyrir fögur orð í þjónustustefnu sinni, um að veita framúrskarandi þjónustu og að starfsfólk útskýri réttindi fyrir viðskiptavinum TR, er það samt ekki gert. Stofnunin telur það geta vakið „óraunhæfar væntingar“ hjá viðskiptavini að upplýsa um nefnd um niðurfellingar endurkrafna. Umboðsmaður Alþingis bendir hins vegar á það sem öllum ætti að vera ljóst, að enginn er betur til þess fallinn að meta hvort félagslegar aðstæður réttlæta umsókn um niðurfellingu endurkröfu, en viðskiptavinurinn sjálfur. Þess vegna ber stofnuninni að leiðbeina um þessi réttindi sem önnur.

ÖBÍ tekur heils hugar undir með umboðsmanni Alþingis og mælist til þess við TR, að stofnunin taki upp faglegri vinnubrögð gagnvart viðskiptavinum sínum. Að TR  geri viðskiptavin sinn heimilislausan fyrir svo lága upphæð, má aldrei verða endurtekið. Löngu er orðið tímabært að TR sýni skilning á aðstæðum og högum skjólstæðinga sinna.

ÖBÍ hvetur TR til að sýna í verki gildi stofnunarinnar, traust samvinnu og metnað.“