Bjarni Benediktsson opnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þingsályktunartillöguna um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Bjarni tók þátt í umræðu á þinginu í kvöld. Mikið var um frammíköll þegar Bjarni talaði.
Bjarni sagði að sér hefði komið á óvart hversu sterk viðbrögð eru vegna tillögunnar, ekki síst þar sem skoðanakannanir sýni að meirihluti landsmanna vill ekki ganga í Evrópusambandið og um nítíu prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins. „Við verðum að læra af þessum viðbrögðum,“ sagði Bjarni.
Bjarni minnti á að ekki var farið að vilja um 75 prósenta kjósenda um að fá að greiða atkvæði á árinu 2009 um hvort rétt hafi verið þá að sækja um aðildina.
Vegna frammíkalla sagði Bjarni að hann vissi ekki hvort tíma sínum væri vel varið, en óskað hefði verið eftir að hann tæki til máls.
Bjarni sagði ekki raunhæft að kosið yrði um tillöguna samhliða sveitastjórnarkosningunum. Hann ítrekaði það sem hann hefur áður sagt: „Ég er ekki sammála að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda áfram, þar sem er ekki á dagskrá þingsins.“
Árni Páll Árnason sagði tillöguna ótæka. „Byrjum upp á nýtt, finnum farveg og fetum leiðina áfram í friði og sátt,“ sagði Árni Páll.