Tilboð um að lágmarkslaun dugi fyrir framfærslu árið 2059
Komið í Hungurgönguna og mótmælið þessum dónaskap.
Gunnar Smári skrifar:
Miðað við framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara og markaðsvirði á lítilli 50 fermetra íbúð duga lágmarkslaun, 300 þús. kr. á mánuði, einstaklingi aðeins til framfærslu fram að kl. 14:53 föstudaginn 22. febrúar næstkomandi. Það sem eftir lifir mánaðar á launafólk á lægstu launum ekki fyrir mat, strætó, lyfjum eða nokkru öðru. Það er þjóðarskömm.
Samtök atvinnulífsins hefur boðist til að hækka lægstu laun um 20 þús. kr. á ári næstu þrjú árin og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur boðist til að breyta skattlagningu lægstu launa. Miðað við 2,5% árlega verðbólgu og 5% hækkun húsaleigu (sem er langt undir hækkun liðinna ára) mun fólk á lægstu launum ekki vera búið með launin sín kl. 14:53 á föstudaginn 22. febrúar heldur kl. 2:24 aðfaranótt 23. febrúar. Launin munu duga hálfum degi lengur.
Hungurgangan, sá tími mánaðarins sem láglaunafólk þarf að tóra án þess að eiga fyrir mat mun styttast úr 153 klukkustundum og 7 mínútum í 141 klukkustund og 35 mínútur. Samkvæmt sameiginlegu tilboði Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar mun þetta nást á þremur árum, hungrið styttast um rúma 4 klukkutíma á ári. Með sama hraða gæti fólk á lægstu launum búist við að eiga fyrir mat út mánuðinn árið 2059.
Það er því ekki að undra að verkalýðshreyfingin hafi tekið þessu tilboði Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar sem móðgun. Þetta tilboð er móðgun og dónaskapur fólks sem er ekki í neinum tengslum við þann raunveruleika sem fólk býr við í dag.
Komið í Hungurgönguna á laugardaginn og mótmælið þessum dónaskap ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins. Laun sem ekki duga fyrir framfærslu eru ofbeldi. Láglaunastefnan er ofbeldi. Láglaunafólkið eru þolendur þess ofbeldis og fyrirtækjaeigendur og ríkisstjórnin eru gerendur.