Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:
Ef við tökum lægsta taxta leikskólastarfsmanns samkvæmt því sem Reykjavíkurborg tiltók í frétt sinn í dag, 311 þús. kr. í grunnlaun og 31 þús. kr. í álagsgreiðslur (10% ofan á laun) og förum með þetta gengum hækkanir lífskjarasamninganna þá myndi fyrsta hækkun koma 1. apríl í fyrra (sem yrði þá afgreidd með eingreiðslu), næsta í apríl í ár, svo 1. janúar 2021 og loks 1. janúar 2022.
Hækkanir yrðu þessar:
- Fyrir samninga: Grunnur 311.000 kr. + álag 31.100 = 342.100 kr.
- 1. apríl 2019: Grunnur 328.000 kr. + álag 32.800 kr. = 360.800 kr.
- 1. apríl 2020: Grunnur 352.000 kr. + álag 35.200 kr. = 387.200 kr.
- 1. janúar 2021: Grunnur 376.000 kr. + álag 37.600 kr. = 413.600 kr.
- 1. janúar 2022: Grunnur 401.000 kr. + álag 40.100 kr. = 441.100 kr.
Hluti af lífskjarasamningnum var skattabreytingar frá ríkissjóði, svo við skulum fara með einstakling á leigumarkaði í gegnum þetta tímabil, látum hann greiða skatta, félagsgjöld og í lífeyrissjóð og fá hámarks húsaleigubætur.
Fyrir samninga hefði þessi einstaklingur borgað 32.888 kr. í nettóskatt (tekjuskattur mínus húsaleigubætur) og borið 9,6% skattbyrði. Eftir skatt, lífeyrissjóð og félagsgjöld væri hann með 293.133 kr. til ráðstöfunar. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eru 169.924 kr. Starfsmaðurinn hefði því 123.209 þús. kr. upp í húsaleigu. Það er nánast óþekkt að hægt sé að leigja íbúð á því verði. Við skulum láta þennan starfsmann leigja 2. Herbergja 50 fermetra íbúð á 150 þús. kr., með rafmagni, hita og hússjóð, sem þykir gott verð. Þessi starfsmaður er þá í 26.791 kr. í mínus í upphafi. Hann sveltur síðustu 5 daga mánaðarins. Þannig er staðan í dag og búin að vera árum saman.
Stökkvum nú til 2022. Þá er skatthlutfallið búið að hækka í 12,4% (launin hækka meira en sem nemur áhrifum skattalækkana ríkisins) og ráðstöfunartekjurnar komnar í 365.628 kr. En þetta er inn í framtíðinni, svo framfærslan hefur líka hækkað. Ef við miðum við verðlagsforsendur fjárlaga fyrir 2020 þá er framfærslan komin í 184.239 kr. Og ef við gerum ráð fyrir að húsaleigan hækki árlega um 2,5% umfram verðlag, sem er mjög varlega áætlað, þá verður hún komin í 175 þús. kr. Starfsmaðurinn á þá eftir 6.389 kr. af launum sínum þegar hann er búinn að borga húsaleigu og nauðþurftir.
Það er því hægt að áætla með svona dæmi að lífskjarasamningarnir, sem svo eru kallaðir, geti fært einstakling á leigumarkaði sem vinnur á leikskóla Reykjavíkur upp fyrir hungurmörk. Ef við berum saman á föstu verðlagi það sem þessi einstaklingur á til ráðstöfunar upp í húsnæði eftir framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara þá hækkar þessi upphæð úr 123 þús. kr. í 167 þús. kr. á þessum tæplega fjögurra ára tímabili, um 44 þúsund krónur. Þau sem hafa verið á leigumarkaði vita hversu rokgjarn þessi ávinningur getur verið, áhættan á að leigan hækki ekki umfram 11 þús. kr. á ári. Ef það myndi gerast sæti þessi starfsmaður í sömu spörum eftir lífskjarasamninganna og áður.
Þá kemur að tilboði Reykjavíkur sem hljóðar upp á 460 þús. kr. við lok samningstímans. Að teknu tilliti til skatta og tilheyrandi hækkar þessi upphæð, ráðstöfunarfé starfsmannsins um 8 þús. kr. til viðbótar við lok samningsins, í árslok 2022 (eftir þing og sveitarstjórnarkosningar). Samanlögð hækkun ráðstöfunarfjár eftir framfærslu en fyrir húsaleigu er þá 54 þúsund, 44 þúsund vegna samninganna í vor og 8 þúsund vegna tilboðs Reykjavíkurborgar. 150 þús. kr. íbúðin (með hita, rafmagni og hússjóði) má þá ekki hækka umfram 13-14 þús. kr. á ári ef ávinningurinn á ekki á eyðast.