- Advertisement -

Til eru fleiri ógnir en glæpir

„Nýlega kom út skýrsla, kölluð svört skýrsla, frá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Hún segir frá gífurlegri hættu á skipulagðri glæpastarfsemi. Það ber að sjálfsögðu að taka alvarlega,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati í þingræðu.

„Það er samt alveg þess virði að hafa í huga að í lífinu eru til fleiri ógnir en glæpir og það er hvernig yfirvöld bregðast við þeim stundum á vondan hátt, með því að bregðast of harkalega við, t.d. með því að gefa lögregluyfirvöldum of miklar heimildir til að ganga inn í persónulíf einstaklinga á þeim forsendum að verið sé að vernda almenning. Það er alltaf ástæðan fyrir því að yfirvöld ganga of langt í hinum svokallaða vestræna heimi,“ bætti hann við. Og svo áfram:

„Sömuleiðis má líka nefna að tegundir þeirra afbrota sem eru nefndar eru tengdar því hvernig samfélagið hefur ákveðið að slá á ákveðna mannlega hegðun. Ein af þeim er vímuefnanotkun. Að mínu mati er það grundvallarmisskilningur yfirvalda að samfélagið vilji vera vímulaust. Það er ekki þannig, samanber það að áfengi er löglegt og allt það, en þegar yfirvöld ætla að fara að takast á við mansal með því að gera það enn þá erfiðara að vera hér í löglegri dvöl, ef þau ætla að takast á við hörmungarnar af völdum vímuefnaneyslu með því að fara enn þá verr með vímuefnaneytendur, tel ég að yfirvöld séu að gera mistök.“

Helgi Hrafn endaði ræðu sína svona:

Að mínu mati er það grundvallarmisskilningur yfirvalda að samfélagið vilji vera vímulaust.

„Þegar við bregðumst við ógnum eins og skipulagðri glæpastarfsemi verðum við að passa að við gleymum því ekki hvers vegna þessi afbrot eiga sér yfirleitt stað. Það er auðvitað ekki bara vegna þess að yfirvöld setja óhóflegar reglur, það er líka vegna þess að til er fólk sem er til í að fara mjög illa með hvert annað og við eigum að taka á því. Eins og ég segi eigum við að taka þetta alvarlega en við megum ekki gleyma því að líta í eigin barm líka og velta upp hvernig sé hægt að leysa vandamálin með einhverri annarri aðferð en meiri hörku.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: