- Advertisement -

Til að hirða skjótfenginn hagnað og skilja leigendur eftir í verri stöðu en áður

Marinó G. Njálsson:

Það skiptir engu máli, hvar er gripið niður hjá leigufélögum í einkaeigu, að þessi snúningur er tekinn reglulega. Það félag, sem núna heitir Alma, hefur farið nokkrar ferði í hringekju eigendaskipta.

Enn einn hringur er tekinn á leigendur í hringekju eigendaskipta á leiguhúsnæði. Heimstaden AB er að selja eignir á Íslandi til Fredensborg AS sem seldi Heimstaden AB eignirnar árið 2021. Fredensborg AS er stærsti hluthafi í Heimstaden AB.

Enn einu sinni, er eigið fé leigufélags skuldsett í botn svo hægt sé að réttlæta hækkanir leigu og tryggja að hagnaðurinn lendi hjá skammtíma eigendum. Hið „tímamóta“ leigufélag, Heimstaden AB sem átti að gjörbreyta íslenskum leigumarkaði í átt að þeim norræna, var bara alveg eins og öll hin. Komið til að hirða skjótfenginn hagnað og skilja leigendur eftir í verri stöðu en áður.

Rifjum þessa sögu aðeins upp. ÍLS hirti/tók yfir eignir heimila og byggingaverktaka eftir hrun. ÍLS neitaði að semja við þessa aðila um gefa eftir skuldir. ÍLS seldi þessar eignir til félagsins Heimavalla með góðum afslætti (22% undir markaðsverði samkvæmt upplýsingum Samstöðvarinnar). Heimavellir var stofnaði árið 2014 og eigendur þess, fyrrum eigendur Stálskipa í Hafnarfirði, sem notuðu söluvirði kvóta og skips til að setja í hið nýja fasteignafélag. Heimavellir settu húsnæðið á leigumarkað og högnuðust á því að hafa keypt ódýrt, þegar fasteignamat var heldur lágt. Síðan lá leiðin á hlutabréfamarkað og Heimavellir voru skráðir í Kauphöllina. Þar byrjaði norskt félag Fredensborg AS að kaupa upp hluti í nafni íslensks dótturfélags, Fredensborg ICE ehf. Þegar verðmæti fasteignasafns Heimavalla var búið að vaxa um meira en eitt hundrað prósent, þá var kominn tími til að selja og Fredensborg ICE ehf. keypti af öðrum hluthöfum. Fyrst var þó fjöldi íbúða seldur og hagnaður greiddur til hluthafa. Í leiðinni var leigendurm vísað á dyr.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tilfærsla á milli kennitala innan sömu samstæðu.

En Fredensborg AS átti stóran hlut í sænska félaginu Heimstaden AB og því þótti tilvalið að láta Heimstaden AB kaupa Heimavelli af Fredensborg ICE ehf. Vafalaust með góðum hagnaði. Enn hækkaði markaðsverð eignanna og viðurkennir Heimstaden AB, að hafa hagnast um 18% á ári, þegar síðasti hringurinn í hringekjunni var farinn, þ.e. Heimstaden AB seldi stærsta eiganda sínum, Fredensborg AS, eignasafn sitt á Íslandi. Uppgefið verð er um 30 milljarðar króna og hagnaðurinn yfir 5 milljarðar.

Niðurstaðan verður náttúrulega verri fyrir leigjendur, að nýir eigendur munu þurfa að hækka leiguna til að standa undir fjármagnskostnaði við yfirtökuna og ávöxtunarkröfu. Allt í einu hefur skuldsetningin aukist um eitthvað yfir 20% og það munu nýir eigendur sækja til leigjenda.

Það skiptir engu máli, hvar er gripið niður hjá leigufélögum í einkaeigu, að þessi snúningur er tekinn reglulega. Það félag, sem núna heitir Alma, hefur farið nokkrar ferðir í hringekju eigendaskipta. Stundum hefur það verið eins og hjá Heimstaden AB, bara tilfærsla á milli kennitala innan sömu samstæðu. Í önnur skipti hafa nýir eigendur komið inn, en þeir hafa, að því virðist, verið með plan um hvernig blóðmjólka megi leigendur. Hjá engum virðist það vera tilgangurinn, að vera langtíma eigendur sem vilja tryggja leigendum stöðugleika í verði til langs tíma. Jafnvel erlendir aðilar, sem hafa, að ég best veit, haft stöðugleika að markmiði á sínum heimavelli, hafa misst sig og farið inn í íslenska munstrið, þegar þeir koma inn á íslenska markaðinn.

Ekki á Íslandi.

Ég tel mig geta fullyrt, að Fredensborg AS gæti aldrei hagað sér svona í Noregi eða Heimstaden AB í Svíþjóð. Í þessum löndum myndu ráðherrar kalla forsvarsmenn fyrirtækjanna á teppið og siða þá til. En ekki á Íslandi. Á Íslandi er nefnilega ekkert sem bannar að selja eignasöfn fram og til baka innan samstæðu og láta, eins og í þessu tilfelli, leigendur borga brúsann. Og hvað er langt í að Fredensborg AS selur eignirnar aftur til Heimstaden AB með nýjum 5 milljarða hagnaði? Hvort sem það gerist eða ekki, þá er líklegast búið að hækka skuldirnar sem hvíla beint eða óbeint á þessu íslenska leiguhúsnæði um 15 milljarða án þess að stofnkostnaður þess hafi aukist um eina krónu. Hugleiðið þetta.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi Marinós. Miðjan valdi fyrirsögnina.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: