- Advertisement -

Þvílíkt hneyksli

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Mér datt í alvöru ekki í hug að það væri hægt að láta sem álit Umhverfisstofnunar væri ekki til.

Getur það verið rétt að meirihluti borgarráðs sem í gær samþykkti hina fáránlegu hugmynd um svokallað Biodome í blessuðum Elliðarárdalnum sé ekki búinn að svara bréfi Umhverfisstofnunar frá því í vor þar sem stofnunin leggst gegn því að partur af dásamlegri náttúruperlu verði tekinn undir rekstrar-drauma einhvers fólks út í bæ? Þegar Umhverfisstofnun gaf út sitt álit fylltist ég mikilli von um að nú hlyti fólk að átta sig á því þvílíkt rugl þessi hugmynd er og hætta við. Mikið er gott að hafa eftirlitsstofnanir sem geta haft vit fyrir stjórnmálafólki sem kann ekki fótum sínum forráð og er á valdi einhverra uppbyggingaróra, hugsaði ég þakklát. Mér datt í alvöru ekki í hug að það væri hægt að láta sem álit Umhverfisstofnunar væri ekki til. Þvílíkt hneyksli.

Ég „nota“ dalinn allan ársins hring. Hann er dásamlegur á sumrin en hann er ótrúleg upplifun á veturna; á köldu vetrarkvöldi er hægt að verða vitni að stórkostlegum norðurljósum og þegar stjörnubjart er verð ég stundum að minna mig á að fara heim svo að ég drepist ekki úr kulda. 
Himnafestingin er nefnilega „dome“ okkar mannfólks, hún hefur verið það frá upphafi og verður það áfram. Það er til marks um stórkostlega firringu og tengingarleysi við það sem skiptir máli að ætla að taka náttúrufegurðar-gjöf til okkar allra undir „grænan heim á norðurslóðum, allan ársins hring“. Við búum á norðurslóðum, þar sem veturinn er það sem hann er; dimmur, kaldur, langur og stundum erfiður en líka fullur af stórkostlegri fegurð sem engin mannshönd getur skapað. 
Stöndum vörð um dalinn okkar, látum ekki fólk sem greinilega veit ekki hvað skiptir máli í þessari veröld taka hann af okkur.

Hér er mynd sem ég tók í vetur á símann, hún er ekkert sérstaklega góð og fangar alls ekki tryllta fegurðina sem ég fékk að verða vitni að þetta kvöld, undir himnahvelfingunni einu, sem getur, ef við erum fær um að stoppa og upplifa, fært okkur gleði og upplifunar, alveg ókeypis, alveg án „vöruvæðingar“ sem eru fáu líkar. 
Takk, kæri dalur, fyrir að vera þarna til staðar fyrir mig og takk fyrir að „blómstra“, ekki síst í hinum merkilega norðurslóðavetri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: