„Mig langar aðeins að rifja upp baráttu Flokks fólksins gegn fátækt og hvernig við komum ítrekað í þennan æðsta ræðustól landsins til að reyna að berjast fyrir réttlætinu, til að reyna að aðstoða fólk sem á hér í vök að verjast vegna fátæktar, hvernig við gáfum núna fyrir jólin þessari ríkisstjórn fjögur tækifæri til að skipta um skoðun þegar við vorum að reyna að berjast fyrir því að um 2.000 eldri borgarar, þeir sem eru í neðstu tekjutíundinni og skrapa botninn í sárafátækt — hvernig þeir gátu ekki litið til með þeim og komið með jólabónus, þessa eingreiðslu fyrir jólin eins og við vorum að berjast fyrir,“ sagði Inga Sæland á Alþingi fyrr í dag.
„Mig langar að nefna í þessu tilviki forgangsröðun fjármuna hjá þessum stjórnvöldum, hvernig það er algerlega sjálfsagt að prenta hér einhvern snobbbækling, Fjallkonan. Þú ert móðir vor kær, sem kostar tugi milljóna. Það er kapítuli út af fyrir sig, samanber Snobbhill-partíið í Hörpu í fyrravor sem kostaði samfélagið yfir 2 milljarða kr. Það er allt í lagi. Þá eru til fjármunir. Þá eru til peningar, þegar á að halda partí sem í rauninni skilaði okkur akkúrat engu,“ sagði Inga og bætti við:
„En það breytir ekki þeirri staðreynd að núna — ég veit ekki hvernig er hægt að réttlæta það þegar fráfarandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, kemur með þetta hugarfóstur sitt sem á að vera afmælisgjöf til Íslendinga í tilefni 80 ára sjálfstæðis okkar hér, kemur með þessa bók sem í rauninni þarf að fleygja í ruslið og endurprenta til þess að núverandi forsætisráðherra hafi formálann í bókinni. Einu sinni mér áður brá, en þvílíkt bruðl og þvílík lítilsvirðing gagnvart fjármunum samfélagsins í heild sinni. Og við skulum líka tala um að þetta er víst gjöf, þetta er gjöf. En hver borgar fyrir hana? Auðvitað skattgreiðendur sjálfir. Gjafaþeginn borgar sjálfur fyrir gjöfina. Svo einfalt er það.“