„Reyndar hefur einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins dregið upp úr pússi sínu blekkingu í ætt við fyrirvarana sem urðu til þess að friða áhyggjufulla þingmenn á sínum tíma. Nú er sem sagt boðið upp á þjóðaratkvæðagreiðslu gegn því að sæstrengur verði lagður eftir innleiðingu orkupakkans sjálfs! Þvílík einfeldni, þvílíkar blekkingar, en þær hafa ekki virkað og óbreyttir sjálfstæðismenn hafa nú blásið til undirskriftasöfnunar til að reyna að hafa vit fyrir forystu sinni. Öðruvísi mér áður brá.“
Það er hinn orðhvassi þingmaður Miðflokksins, sem skrifar þetta í langri grein um orkupakkann í Mogga dagsins. Hér er skotið á Harald Benediktsson. Haraldur reyndi að lægja öldurnar í eigin flokki með hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu um sæstreng, komi hann til greina. Davíð Oddsson og Styrmir Gunnarsson fögnuðu báðir hugmynd Haraldar.
Þorsteinn sendir þingmanni Samfylkingarinnar létt högg. Sennilegt er að hann eigi við Helgu Völu Helgadóttur:
„Nú síðast skaust fram á sviðið þingmaður Samfylkingarinnar í því augnamiði að reyna að koma höggi á Arnar Þór Jónsson. Nokkuð hátt er reitt og þöggunartilburðir hafðir uppi en höggið er – vindhögg. Þingmaðurinn telur nauðsyn mesta til að skilja OP3 að mæta á fundi, hlusta og skilja. Nú hef ég ekki kannað mætingu þingmannsins á fundi en hlustað hefur hún ekki.“