- Advertisement -

Þverklofinn forysta heilbrigðismála

- ólík viðhorf til starfa sjúkrahússlækna á einkastofum.

„Hluti sjúkrahúslækna sinnir einnig sjúklingum á læknastofum og hefur ríkt sátt um það fyrirkomulag marga undanfarna áratugi,“ skrifar Reynir Arngrímsson, formaður Læknaráðs Landspítala, í Morgunblaðið í dag.

Birgir Jakobsson landlæknir segir, í viðtali við Fréttablaðið í dag,  að hér sé kerfi; „…sem gerir það að verkum að sérfræðingar og læknar dragast frá Landspítala í stofu­praxís í of miklum mæli að mínu mati sem þýðir að sérfræðingar verja of litlum tíma á LSH. Þar með er öryggi sjúklinga stofnað í hættu.“

Skynsamlegt

Meiningamunur þessara tveggja forystumanna í heilbrigðismálum er mikill, jafnvel sláandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Reynir rifjar upp: „Þá er þess skemmst að minnast að í kjölfar bankahrunsins árið 2008 óskuðu stjórnendur Landspítala eftir því að sérfræðilæknar minnkuðu starfshlutfall sitt við sjúkrahúsið þannig að ekki þyrfti að koma til uppsagna. Var það skynsamleg ráðstöfun þar sem hætta hefði verið á að mikilvæg þekking og reynsla hefði alveg horfið úr landi við þær aðstæður sem þá voru uppi.“

Óskynsamlegt

„Ég bendi á að yfir helmingur sérfræðilækna á LSH er einnig í einhvers konar einkastarfsemi. Það er mjög óeðlilegt frá sjónarhorni sjúkrahússins og sjúklinga,“ segir Birgir í Fréttablaðinu. „Öryggi þeirra er í hættu vegna þess að á meðan sérfræðingar eru á stofu eru þeir ekki að sinna veikustu sjúklingum kerfisins sem liggja á spítala. Þá eru það unglæknar eða kandídatar sem halda uppi þeirri starfsemi auk hjúkrunarfræðinga.“

Peningarnir

Í Fréttablaðinu segir að útgjöld ríkisins til heilbrigðismála hafa aukist um 40 prósent til einkageirans en á sama tíma hefur orðið raunlækkun á framlögum í opinbera heilbrigðisþjónustu. Til að mynda hefur Landspítalinn gefið það út að mikla fjármuni vanti í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til að standa undir þeirri þjónustu sem sjúkrahúsið þarf að sinna á næstu árum.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: