ÞV: Tökum þessa umræðu!
Umræða Í hvert sinn sem málefni flóttamanna ber á góma rísa hér upp raddir sem gagnrýna að við séum að liðsinna fólki í neyð. Gjarnan er þeim rökum beitt að valið standi milli þess að liðsinna flóttamönnum eða lyfta undir með fátækum Íslendingum með auknum framlögum til örorku- eða ellilífeyris. Eins og ekki sé hægt að gera bæði. Rökunum fylgja síðan gjarnan yfirlýsingar um að við verðum að hafa hugrekki til að taka þessa umræðu. Ýmsir málsmetandi stjórnmálamenn hafa beitt þessum rökum fyrir sig og nýr stjórnmálaflokkur er að sækja í sig veðrið undir merkjum þessarar hugmyndafræði.
Það er reyndar áhugavert í þessu samhengi að kostnaði við móttöku flóttamanna er aldrei stillt upp sem andstæðu við einhver önnur útgjöld ríkisins á borð við niðurgreiðslu á rekstri Hörpunnar, niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði á landsbyggðinni eða framlaga til uppbyggingar ferðamannastaða svo dæmi séu tekin af handahófi. Ekki það að þessir kostnaðarliðir séu eitthvað sem þyrfti að fórna vegna móttöku flóttamanna fremur en greiðslur til lífeyrisþega.
Staðreyndin er nefnilega sú að ef ekki væri fyrir innflytjendur og flóttamenn hefði hagvöxtur líkast til orðið talsvert minni en raun ber vitni á undanförnum árum. Ekki hefði verið hægt að manna mikilvæg störf án aðkomu innflyjenda. Þeir eiga því mikinn og vaxandi þátt í að standa undir velferðarkerfinu okkar. Erlendir ríkisborgarar eru nú um 10% mannfjöldans hér á landi og hefur farið fjölgandi jafnt og þétt frá því EES samningurinn tók gildi í ársbyrjun 1994 og íbúum á evrópska efnahagssvæðinu varð frjálst að flytja hingað til lands.
Raunar er það svo að fyrir tilkomu EES samningsins fluttust fleiri frá landinu en til þess að jafnaði. Frá 1961 til 1993 fluttust tæplega 7000 fleiri frá landinu en til þess. Frá 1994 hafa hins vegar liðlega 17 þúsund fleiri flutt til landsins en frá því. Frá 1961 til 2016 fluttust 25 þúsund fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Á sama tíma fluttust um 36 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því. Það munar um minna.
Hvernig hefði okkur gengið að sinna mikilvægum þjónustustörfum hér á landi án aðstoðar innflytjenda? Heilbrigðisþjónusta, öldrunarþjónusta, bygging íbúðarhúsnæðis og fjöldinn allur annar af mikilvægri þjónustu við íbúa landsins reiðir sig í vaxandi mæli á innflytjendur sem þar starfa. Atvinnuþátttaka innflyjenda hér á landi er mjög há og það sama á við um flóttamenn.
Reynsla okkar af móttöku flóttamanna í gegnum árin og áratugina er að sama skapi mjög góð. Við tókum á móti fólki í neyð frá Ungverjalandi eftir misheppnaða uppreisn gegn stjórn kommúnista 1956. Við tókum á móti fólki í neyð frá Víetnam 1979 og við höfum haldið áfram að taka á móti fólki í neyð allar götur síðan, nú á síðustu árum einna helst frá Sýrlandi. Engum dylst þær skelfilegu aðstæður sem fólk er að flýja þar og raunar er fjöldi flóttamanna í heiminum í dag fordæmalaus, m.a. vegna stríðsins í Sýrlandi. Þar eigum við að sjálfsögðu að reiða fram hjálparhönd.
Þessa vegna skulum við taka þessa umræðu. Staðreyndin er nefnilega sú að hagvöxtur hefði verið hér minni, velmegun minni og velferðarkerfið veikara ef ekki hefði notið við aðstoðar innflytjenda; flóttamanna sem og annarra. Þeir sem stilla móttöku flóttamanna og framlögum til velferðarkerfisins upp sem andstæðum eru eingöngu að breiða yfir raunverulega rót afstöðu sinnar til málaflokksins sem eru ekkert annað en fordómar. Markmið með þessari framsetningu er einfaldlega að ala á andúð í garð þess fólks sem hingað hefur komið í leit að betra lífi og hefur um leið lagt sitt af mörkum til að byggja hér upp öflugt og gott samfélag. Innflytjendur eiga svo sannarlega betra skilið.
Tökum endilega þessa umræðu!
(Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Þorsteins Víglundssonar).