Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar:
Mikið svo rosalega hef ég orðið litla þolinmæði gagnvart svona fréttum. Það er í meira lagi stórfurðulegt að fagaðilar (arkitektar, verkfræðingar, iðnaðarmenn) skuli klikka á að gera vatnshalla réttan í baðherbergjum yfir höfuð. Enn skrýtnara er að verið sé að hugsa um að setja þröskulda í herbergi sem ætluð eru fötluðu fólki. Ég hef enga þolinmæði gagnvart þessari klisju að nú ætli þessir fagaðilar loksins að læra af mistökunum, þetta eru dýr og algjörlega óþörf mistök. Menn eru ekki að teikna, vinna eða byggja í fyrsta skipti, er það nokkuð? Ef alla þessa fagaðila vantar upplýsingar um hvernig aðgengi fyrir fatlaða þarf að vera þá er einfaldast að hafa samband við hagsmunasamtök fatlaðs fólks sem sennilega tækist að útskýra hvernig aðgengi fyrir alla á að virka.