Greinar

Þurfum við að skilja eftir 50 ár hjónaband?

- tll þess að komast fjárhagslega af?

By Ritstjórn

November 19, 2018

Wilhelm Wessman skrifar: Þegar við Ólöf giftum okkur og eignuðumst þrjú börn voru engar barnabætur. Á þeim tíma þótti það nánast brottrekstrarsök að ég tók mér frí daginn sem hún kom heim af fæðingardeildinni af því að það var laugardagur, annasamasti dagur vikunnar í hótel og veitingageiranum.

Ég byrjaði að greiða í lífeyrissjóð 1968 til að geta tryggt okkur fjárhagslegt öryggi á efri árum og borgaði skatt af þeim hluta sem ég greiddi í 20 ár, eða þar til staðgreiðslan kom 1988. Ég greiði skatt í dag af þessum sömu peningum. Heitir þetta ekki tvísköttun?

Þar sem við Ólöf tókum þá ákvörðun að hún mundi vera heimavinnandi til að gæta barnanna á hún engin lífeyrissjóðsréttindi og hefur því 204.000 eftir skatt frá TR . TR skerðir mínar lífeyrisgreiðslu eftir skatt um 45 prósent þannig að ævisparnaðurinn er farinn.

Til þess að geta hreykt sjálfum sér á tyllidögum og í ræðupúlti Alþingis fundu ráðherrar og alþingismenn á ofureftirlaunum upp það snjalla bragð að greiða einhleypum eldri borgurum sem eru um 25 prósent af okkur sextíu þúsund krónum á mánuði í heimilisuppbót. Þannig geta þeir hreykt sér að því að eldri borgarar séu með 300,000 fyrir skatt á mánuði og að TR greiði hæstu eftirlaun allra landa.

En staðreyndin er að Ísland skorar nánast lægst allra OECD landanna þegar kemur að hlutfalli greiðslu eftirlauna af VLF aðeins 2,6 prósent. Á hinum Norðurlöndunum eru lífeyrisgreiðslur hins opinbera 5,4-11 prósent af VLF og nánast óþekkt að lífeyrissjóðsgreiðslur séu skertar.

Skilnaður er því eina leiðin til að hækka launin um 60 þúsund á mánuði.