- Advertisement -

Þurfum að hækka fjármagnstekjuskatt verulega

Marinó G. Njálsson:

Litið verði á hagnað framleiðslu- og þjónustufyrirtækja umfram það sem hóflegt þykir, sem hvalreka, sem lagður verði á hvalrekaskattur upp á 60-80%

Samkvæmt Oxfam rennur 84% af hagnaði stærstu fyrirtækja heims til hluthafa í formi arðgreiðsla. Þessar arðgreiðslur fara út úr þeim hluta hagkerfisins sem heldur framleiðslu- og þjónustugeirunum gangandi og kemur líklegast aldrei til baka.

Miðað við þetta, er tímabært að hækka fjármagnstekjuskatt mjög mikið. Fyrir einhverjum áratugum mátti í sumum löndum sjá slíkan skatt um og yfir 40% og ég held að sá tími sé kominn aftur. Ástæðan fyrir lækkun skattsins, var að svo mikil áhætta væri fólgin í því að geyma peninga í efnislega hagkerfinu. Núna er staðan slík, eins og Oxfam bendir á, að nánast engin áhætta er lengur til staðar og frekar hægt að tala um, að neytendur og fyrirtæki séu orðnar að mjólkurkúm fjármagnseigenda (og fjármálafyrirtækja). Fyrir utan að nánast undantekning er á því, að fé sem ratað hefur sem arðgreiðsla til fjármagnseigenda sé endurfjárfest í efnislega hagkerfinu.

Heyri fjárfesta fyrir mér segja: „En hvað sem fjárfestingar í hlutabréfum?“ Sé ekki um nýja eða viðbótarútgáfu hlutabréfa, þá erum viðskipti með hlutabréf ekkert annað en veðmál um arðgreiðslur annars vegar og loft hins vegar (kallað væntingar). Efnahagslegur styrkur fyrirtækjanna virðist ekkert skipta máli, bara hvað er hægt að sannfæra fjárfesta um að hlutabréfin eigi að kosta. Ekki þarf annað en að skoða verð hlutabréfa í nokkrum af stærstu fyrirtækjum heims. Efnislegar eignir þessara fyrirtækja eru sjaldnast nema brot af virði hlutabréfanna. Hitt er froða í formi huglægra óefnislegra eigna. Sem sagt loft.

Marinó:

Ég veit það bara, að það gengur ekki lengur, að almennir neytendur séu endalaust hafðir að féþúfu af gráðugum fjármagnseigendum.

Staðreyndin er, að væri ekki fyrir græðgi fjármagnseigendanna, þyrftu laun ekki að hækka eins mikið og ört og raun ber vitni.

Nú veit ég svo sem ekki hve há upphæð 84% af hagnaði þessara fyrirtækja er. ALLUR þessi peningur kemur frá viðskiptavinum þessara fyrirtækjanna. Launafólk þarf hærri laun til að standa undir græðginni, ríkið þarf að krefja hærri skatta og heimilin þurfa að skerða lífsgæði sín og forgangsraða útgjöldum.

Árin 2005 og 2006 fannst Apple nóg að vera með um 10% hagnað. Frá árinu 2010 hefur hagnaður fyrirtækisins aldrei farið undir 20% af veltu. Ég efast ekki augnablik um að Apple er ekki eitt um þetta. Svona munur birtist neytendum í dýrari vöru og hærri verðbólgu. Hann birtist launagreiðendum í kröfum um hærri laun og þar með hærri rekstrarkostnað.

Svo furðulegt sem það er, þá er EINA lausnin að hækka skatta á hagnað fyrirtækja og arðgreiðslur þeirra. Senda þarf þau skilaboð til fjármagnseigenda að óhóflegar kröfur um hagnaðarhlutfall séu ekki liðnar. Litið verði á hagnað framleiðslu- og þjónustufyrirtækja umfram það sem hóflegt þykir, sem hvalreka, sem lagður verði á hvalrekaskattur upp á 60-80%. Þessi fyrirtæki geta á einfaldan hátt komist hjá því að greiða slíkan hvalrekaskatt. Ein leið er að lækka vöruverð, önnur er að hækka laun starfsmanna.

Ég veit það bara, að það gengur ekki lengur, að almennir neytendur séu endalaust hafðir að féþúfu af gráðugum fjármagnseigendum. Oft þessum sömu fjármagnseigendum og svelgist á yfir því að launafólk á lægstu töxtum krefjist hærri launa. Staðreyndin er, að væri ekki fyrir græðgi fjármagnseigendanna, þyrftu laun ekki að hækka eins mikið og ört og raun ber vitni.

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: