„Í bankahruninu fyrir rúmum áratug tapaði norski olíusjóðurinn, bakhjarl norska ríkisins og einn sá öflugasti sinnar tegundar í heimi, stórum hluta af eignum sínum. Íslensku lífeyrissjóðirnir töpuðu líka grimmt. Svo náði kapítalisminn sér á strik og eftir að kyndarar neysluhagkerfisins höfðu fýrað vel upp í nokkur ár voru allir búnir að ná sér. Braskarar græddu og grilluðu á ný sem aldrei fyrr.“
Þannig byrjar grein Ögmundar Jónassonar í Mogga morgundagsins. Síðan dregur Ögmundur upp fína en stutta söguskýringu:
„Í verðbólgufári sem iðulega kom upp á öldinni sem leið hugkvæmdist mönnum að verðtryggja þær stærðir sem þótti skipta máli að héldust óhreyfðar að verðgildi, nefnilega launin og lánin og þar með sparifé fólks. Meðan þessa naut við hækkuðu umsamin laun í samræmi við verðlagsþróun og lánin að sama skapi. Það sjónarmið varð fljótlega ofan á að þetta fyrirkomulag skrúfaði upp verðbólguna og kom að því að verðtrygging launa var afnumin með lögum en illu heilli ekki vísitölubinding lána. Við þetta var rekið upp ramakvein í þjóðfélaginu og talað um misgengi lána og launa. Sjálfur var ég í þeim kór.“
„Allar tilraunir til að setja þak á vaxtakostnað komu fyrir ekki og varð vaxtabyrði lána að meiri háttar meinsemd.
Svo kom hrunið 2008. Þá hefði þurft að aftengja vísitöluna þegar í stað. Hið sama á við nú. Ekki vegna þess að við höfum vissu fyrir verðbólguskoti á næstunni, það er nokkuð sem enginn veit. Heldur vegna hins að í hruni felur verðtrygging fjármagnsins í sér aftengingu við hverfulan veruleikann. Verðtryggingin þýðir nefnilega að fjármagnið skuli halda verðgildi sínu án tillits til veruleikans í samfélaginu.“