Þurfa að lengja raðirnar fyrir utan hjálparstofnanir til að biðja um mat
„Við skulum ekki gleyma því að kjarabætur til almannatryggingaþega eru engar kjarabætur. Það er nákvæmlega það sem við erum alltaf að benda á. Þau fá ekki hækkanir ofan á eitt eða neitt. Þau hafa ekki möguleika á því að fara í verkföll og kalla eftir bættum hag. Þau þurfa bara að lengja raðirnar fyrir utan hjálparstofnanir til að biðja um mat,“ sagði Inga Sæland á Alþingi.
„Það er alveg skelfilegt að þurfa að horfa upp á þetta. Það er sárara en tárum taki að hér skuli vera stjórnvöld sem láti þetta viðgangast. Að hér skuli vera ríkisstjórn sem segir: Við erum að safna 600 milljarða skuldum á næstu tveimur árum til að takast á við Covid-faraldurinn.“
„En hvað eru þau að gera fyrir fátækasta fólkið í landinu? Þeim er í lófa lagið að tryggja almannatryggingaþegum það að þeir fái aldrei minna en það sem eðlilegt er og gengur og gerist á launamarkaði landsins hverju sinni. Þeim er það í lófa lagið. Og ég kalla eftir því að þau hafi þá samvisku að þau sýni það í verki að það sé það sem þau vilja og ekkert annað,“ sagðI Inga.