Bubbi Morthens skrifar fína grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Þar sem hægt er að taka undir hvert einasta orð birtist greinin hér.
Alveg er það makalaust að skattayfirvöld séu að finna sér leið til þess að skattleggja tvöfalt höfundarrétt Halldórs Laxness. Í raun ætti ríkið að þakka fyrir sig og láta höfundarrétt hans í friði. Þetta gerist á sama tíma og græðgisvæðingin er komin á fullt aftur, bara nokkrum árum eftir hrun. Þetta lið sem kostaði þjóðina ævisparnaðinn situr á tindi siðrofsins þar sem fjármálageirinn treður ofan í ginið á soltnum úlfum í Armani-jakkafötum milljarða bónusum sem enginn þeirra hefur unnið sér fyrir heldur virðast þetta vera lög skrifuð í blóð fjármálageirans.
En þetta er látið viðgangast og lífeyrissjóðirnir taka þátt í þessari vegferð og greiða ungri konu eingreiðslu upp á 20 milljónir.
Við erum komin á sama stað og rétt fyrir hrun. Þeir ríkari verða ofsaríkir og þeir ofsaríku verða stjarnfræðilega ríkir. Panamakóngar fengu boð frá Seðlabankanum um að koma heim með svart fé sitt og fjárfesta í eignum á hrakvirði og græða ævintýralega. Og siðrofið heldur áfram. Meðan heilbrigðiskerfinu blæðir og menntakerfið skrimtir þá er skatturinn að pönkast á erfingjum nóbelsskáldsins. Halldór Laxness er alvöru verðmæti. Það sem hann skrifaði, það sem hann færði þjóð sinni er svo stórt, svo mikilfenglegt að það verður ekki verðlagt. Og að skattleggja höfundarréttinn tvöfalt er hneisa sem lýsir á einhvern átakan legan máta hvar sumir eru staddir á vegum úti. Sem þjóð eigum við sumum svo stóra skuld að gjalda að hún verður aldrei greidd. Þá dettur mér strax í hug Jónas Hallgrímsson og Halldór Kiljan Laxness. Án þeirra verka, þeirra framlags til íslenskrar menningar værum við hnípin þjóð í vanda
Í fúlustu alvöru: Áður en þú leggst til hvílu í kvöld, ríkisskattstjóri, lestu þá eitt ljóð eftir Jónas og svo sem einn kafla eftir Kiljan. Frjálst val! Og auðgaðu anda þinn og fylltu hjarta þitt dásamlegu ljósi. Skoðaðu svo alla þessa bónusgæðinga og Panamariddara og sjáðu sannleikann í hjarta þínu.