Ríkisstjórnin og þríeykið fá heldur betur ádrepuna í leiðar Hringbrautar.
„Þremenningarnir sem hafa meira og minna stýrt landinu frá í mars á þessu ári og unnið sér traust hafa skyndilega misst tökin á verkum sínum og þar með glatað trúverðugleikanum,“ segir þar og svo þetta:
„Þau hafa komið með vel rökstuddar tillögur um sóttvarnir og aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar skæðu og notið stuðnings þjóðarinnar. En nú er eins og þau hafi misst einbeitinguna og hreinlega gefist upp í baráttunni, farið á taugum. Það er uppgjöf að leggja til að landinu verði lokað fyrir ferðamönnum með því að skikka alla erlenda gesti til að fara í fimm daga sóttkví við komuna til landsins. Þegar vitað er að meðaldvalartími ferðamanna á Íslandi er innan við vika, þá munu fáir eða engir koma til Íslands einungis til að dvelja í sóttkví!“
Hringbraut hefur ekki svo miklar áhyggjur af kórónaveirunni:
„Það er þó enn alvarlegra að ríkisstjórnin skuli hafa farið að þessum tillögum í stað þess að leggja heildstætt mat á stöðuna. Ríkisstjórnin hefur kallað til sín fólk sem haldið hefur fram afar þröngum sjónarmiðum varðandi umræddan vanda og ekki gert neina tilraun til að meta heildarmyndina. Það er pólitísk ákvörðun að loka landinu og greiða atvinnulífinu þung högg sem hitta ríki og sveitarfélög fyrir á endanum. Það þarf enginn að halda að lokun landsins bitni einungis á ferðaþjónustunni heldur ýmsum öðrum atvinnugreinum eins og matvælaiðnaði, byggingariðnaði, verslun, þjónustu, fjármálastarfsemi og fleiri greinum. Atvinnuleysi mun stóraukast og þar með atvinnuleysisbætur samhliða því að tekjur ríkis og sveitarfélaga minnka stórlega. Það er eins og láðst hafi að horfa á heildarmyndina og enginn verður frekar gerður ábyrgur fyrir því en ríkisstjórnin.“
Og svo eru það fræðimennirnir:
„Einar Hálfdánarson, hæstaréttarlögmaður, vakti athygli á því í blaðagrein í gær að verið væri að skerða stjórnarskrárvarin réttindi landsmanna með ferðabanninu. Hann kallar ríkisstjórnina „róttæka vinstri stjórn“. Miðað við síðustu atburði er alveg óhætt að taka undir það mat þegar stjórnvöld reyna að taka sér vald sem enginn gaf þeim í lýðræðislegum kosningum. Í grein sinni hæðist Einar að tveimur prófessorum sem hafa fjallað um stöðuna og gengið svo langt að tala um „drepsótt“ þegar flestum þykir víst nóg um að verið sé að glíma við vonda veirusýkingu. Alveg er óhætt að nafngreina þessa prófessora þannig að hægt sé að hafa varann á næst þegar þeir deila vafasömum viðhorfum með þjóðinni. Hér eru á ferðinni Gylfi Zoega og Þórólfur Matthíasson sem eflaust eru hinir mætustu fræðimenn þó þá skorti tilfinnanlega skilning á gangverki samfélagsins, ekki síst atvinnulífsins sem þeir hafa litla reynslu af.“
Best að birta það sem eftir er af leiðara Hringbrautar:
„Trúverðugleiki margra hefur beðið hnekki. Og ekki hjálpaði kjánalegt háttalag ferðamála- og iðnaðarráðherra um síðustu helgi sem væntanlega verður ekki tekin mjög alvarlega fyrst um sinn sem ráðherra þessara atvinnugreina.
Nú þurfa einstaka ráðherrar og þingmenn að meta stöðuna og horfa á stóru myndina ef þeir ætla ekki að bera ábyrgð á óbætanlegum skaða gagnvart atvinnulífi og fólki á Íslandi. Það þarf að vinda ofan af þessum afglöpum sem fyrst. Með skjótum viðbrögðum er unnt að vinna skaddaðan trúverðugleika til baka. Alla vega að hluta til.“
Ekki kemur fram hver skrifar.