Æðsta ráð Sjálfstæðisflokksins er á einu máli. Nú verður að skera niður ríkisútgjöld. Bjarni sagði þetta, Styrmir fagnar og það sem er mest um vert, Davíð gefur grænt ljós á aðgerðir.
Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn. Bjarni segir, Styrmir fagnar og Davíð samþykkir. XD við Háaleitisbraut.
Hvert mun verða leitað? Hvar verður skorið niður? Sagan er ólygnust. Þá verður byrjað á því fólki sem minnstar hafa varnirnar. Þeim sem veikast standa.
Í Staksteinum, pólitísku sendibréfi Davíðs, segir: „Styrmir Gunnarsson skrifaði á vef sinn í gær: „Í samtali við RÚV í morgun sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að það væri nauðsynlegt við núverandi aðstæður að fara yfir hvern einasta útgjaldalið ríkissjóðs til þess að kanna, hvar hægt væri að skera niður.“
Davíð stökk hæð sína í loft upp af fögnuði:
„Þessi ummæli Bjarna eru fagnaðarefni. Það hefur gjarnan verið svo, að það hefur þótt sjálfsagt að fyrirtæki og heimili skeri niður útgjöld, en minna um að opinberir aðilar, og þá er átt við bæði ríki og sveitarfélög, geri það sama.
Ummæli Bjarna sýna að hann hefur fullan skilning á því að nú eigi það sama við um ríkissjóð. Væntanlega munu þess sjást merki í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár í haust.“
Andúðin á opinberum störfum og starfsfólki er sígild í þessum ranni:
„Hið opinbera hefur þanist út og nú þarf að bregðast við með fækkun opinberra starfa og auknu svigrúmi fyrir einkageirann sem skapar verðmætin sem eru forsenda bæði fyrir opinberum störfum og velferð almennings.“
Þetta skrifaði Davíð sem meginþorra af eigin starfsævi var opinber starfsmaður. Hana nú.
-sme