Enn úr viðtali Moggans við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og og formanns Vinstri grænna. Nú er talað um hversu erfitt er að vera í ríkisstjórn:
„Já. Það er auðvitað aldrei neitt auðvelt að vera í ríkisstjórn. Ég veit svo sem ekki hvernig þetta var hér áður fyrr, en nú hef ég setið í tveimur ríkisstjórnum. – Kannski þetta hafi verið öðru vísi í fortíðinni þegar það var meiri stöðugleiki í stjórnmálum, engir samfélagsmiðlar og ekki krafa um að bregðast við umræðunni á sömu sekúndu og mál koma upp. – En það er erfitt að vera í ríkisstjórn, þannig er það nú bara. Það er erfitt að halda liðinu saman, alveg óháð því hverjir eru saman í stjórn, held ég…“
Og Mogginn spyr: „Ertu mikið í því?“
„Að halda liðinu saman? – Já, það er nú einfaldlega starf forsætisráðherra, að leiða ríkisstjórnina og sjá til þess að hún starfi sem ein heild. Að gæta þess að finna sameiginlegar lausnir á málum, sem allir geta fellt sig við, þótt auðvitað sé ánægjan mismikil eins og gengur hjá stjórnarflokkum með ólík viðhorf til ýmissa mála.
Lýjandi?
„Stundum, en sjaldnast um of. Þetta er bara starfið sem mér hefur verið treyst fyrir. Og flest störf eru lýjandi á köflum.“
Og þér líður vel í því?
„Já. Þetta er krefjandi starf og maður er aldrei búinn í vinnunni, en það er bæði skemmtilegt og gefandi líka.“