„Mig langar til að koma upp í beinu framhaldi af óundirbúnum fyrirspurnum þar sem hæstvirtur forsætisráðherra fékk þá spurningu, ekki í tvígang heldur ítrekað, hver hennar afstaða væri til tiltekins dómsmáls sem er höfðað af hálfu íslenska ríkisins gegn konu, þ.e. af hálfu menntamálaráðherra, ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn. Og þrátt fyrir að vera þráspurð um efnið þá tekst ekki að fá fram svör hennar við því hvernig henni hugnast það,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn.
„Í sjálfu sér felst auðvitað í því ákveðið svar að hún skuli aftur og aftur fá tækifæri til að lýsa því yfir að þetta samræmist ekki hennar eigin jafnréttispólitík í áherslum en hún velji að gera það ekki. Auðvitað er það ákveðin afstaða. Síðan er það kannski, í framhaldi af því sem við vorum að ræða hér fyrr í dag um fundarstjórn, varðandi aðgengi okkar að upplýsingum, þannig að þeir ráðherrar sem minni hlutinn á erindi við hér í dag eru ekki mættir. Það er ekki hægt að eiga samtal við þá ráðherra tvo.“