„Bankakreppan, sem hér heitir „hrunið“, skall hvarvetna á þar sem frjálst bankakerfi var til staðar. Hvergi nema hér hófst umræða um það að breyta stjórnarskrá lands af því tilefni í einhvers konar eilífan stjórnarsáttmála óskhyggjuflokka,“ skrifar Davíð Oddsson, og hirðir sýnilega ekki um mikla nákvæmni, frekar en áður, kann einhver að segja.
Ekki er hægt að taka undir að bankakreppa hafi orðið hvar sem frjálst bankakerfi er til staðar. Látum það liggja á milli hluta. Söguna skrifar hver með sínu nefi.
Fólk vildi nýja stjórnarskrá, ekki rétt?
„Stjórnarskrá þarf helst að vera þannig að hægt sé að fara eftir henni um langa hríð. Þess vegna er þannig um hana búið að hún standi betur af sér upphlaup fávísra framagosa og skammlífra dellumakara í stjórnmálum en til að mynda lög gera og er þó nokkur fyrirstaða í þeim.“
Þarna er ekki skrifað um „fyrirmenninn“ einsog ritstjórinn gerir stundum.
„Hópur þráhyggjumanna kaffihúsanna komst áfram með þessa meinloku allt of lengi og jafnvel sæmilega þroskaðir stjórnmálaflokkar stilltu sér ekki upp gegn óráðshjali og bulli. Þess vegna lifði málið lengur og skaðaði umræðuna meir og en gerst hefði ef öflugra fólk hefði verið til staðar.“
En hver er staða stjórnmálamanna nútímans?
„Það er tekið að renna upp fyrir kjósendum að íslenskir stjórnmálamenn hafi nánast engin völd lengur, nema í orði kveðnu.“
En umræðan á Alþingi um þessi mál, hvernig er hún?
„Umræðan á Alþingi um slík atriði er þannig að mannskemmandi er að fylgjast með henni. Það er þó vitað að þar sitja enn nokkrir menn sem hafa burði til að slá á fáránleikann en þeir virðast hafa gefist endanlega upp fyrir ruglinu.“
Nú er mjög takmarkað hversu mikið hver og einn má styrkja stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn. Er það ekki fínt?
„Menn fá ekki lengur að styðja þá stjórnmálamenn fjárhagslega sem þeir treysta að standi helst fyrir sjónarmiðum sem þeir telja æskileg. Og það þótt upphæðirnar séu svo lágar að þær geta engu skipt um fjárhagslega getu flokka til að koma sér á framfæri. Afleiðingin er sú að flokkarnir eru allir á framfæri ríkis og sveitarfélaga. Kjósendur eru neyddir til að standa nánast algjörlega undir starfsemi flokkanna og einnig þeirra flokka sem þeir hafa ógeð á og telja landi og þjóð til óþurftar. Vaxandi ríkisvæðing hugarfarsins þýðir samkvæmt gervivísindunum að talið er ósiðlegt að fólk fái að styðja flokka sem það vill styðja.“
En samt voru átök í stjórnmálunum, ekki satt?
„Almenningur sá bara fólkið sem hann hélt að væru andstæðir pólar í stjórnmálum kyssast fleðulega fyrir framan sjónvarpsvélarnar áður en á þeim var slökkt og það fór saman á pöbbinn á kostnað ráðuneytisins.“
(Byggt á nýjasta Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu).