Þögn um þróun mála á heimsvísu í ályktunum landsfundar væri vísbending um „hræðslu“, sem sá flokkur í ljósi allrar sögu sinnar gæti ekki verið þekktur fyrir.
„Frá íslenzkum stjórnvöldum heyrist lítið um Kína á norðurslóðum. Hvað ætli valdi? Getur verið að í þeirri þögn felist „hræðsla“ við hið vaxandi stórveldi í austri? Að stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn óttist að ef styggðaryrði falli frá þeim í garð útþenslustefnu Kína verði þess hefnt á þann veg að það valdi eins konar viðskiptalegum sársauka?“
Þetta er hluti greinar Styrmis Gunnarssonar í Mogga dagsins.
„En í tilviki Kína snýst þetta um að gera Kína ljóst, að Ísland ætli sér ekki að verða eins konar „leppríki“ þeirra í Norðurhöfum. Tónninn í athugasemdum, sem ítrekað hafa birtzt hér í Morgunblaðinu á þessu ári frá kínverskum sendimönnum hér, bendir til þess að það kunni að vera nauðsynlegt að minna á það,“ skrifar Styrmir.
Seinna í greininni lítur Styrmir til Valhallar:
„Í nóvember kemur landsfundur Sjálfstæðisflokksins saman. Að vísu hljóta að óbreyttu að koma upp álitamál um hvort hægt verði að halda hann á þeim tíma en það er annað mál.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá því fyrir lýðveldisstofnun verið kjölfestan í utanríkismálum okkar Íslendinga. Hann var leiðandi við stofnun lýðveldis á sínum tíma og forystumenn hans mótuðu þá utanríkisstefnu, sem hið unga lýðveldi tók upp með þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, margvíslegu samstarfi Vestur-Evrópuþjóða eftir stríð, aðild að Atlantshafsbandalaginu og með gerð varnarsamnings við Bandaríkin, sem enn er í gildi.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með því, hvort og þá hvernig landsfundur Sjálfstæðisflokksins fjallar um þá nýju heimsmynd, sem hér hefur verið fjallað um.
Þögn um þróun mála á heimsvísu í ályktunum landsfundar væri vísbending um „hræðslu“, sem sá flokkur í ljósi allrar sögu sinnar gæti ekki verið þekktur fyrir.“