- Advertisement -

Þrælahald var ekki bannað á Íslandi

Lágstéttin hefur því gengið í gegnum þrjú tímabil frá landnámi: Þrælahald, vistarband, launavinna.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Þrælahald var ekki bannað á Íslandi heldur lagði yfirstéttin það niður þegar kom í ljós að ódýrara var að nýta vinnuafl bjargarlauss fólks með vistarbandi en þrælahaldi. Samkvæmt lögum voru skyldur þrælahaldarans gagnvart þrælum sínum kostnaðarsamari og meira íþyngjandi en skyldur bóndans gagnvart vinnufólki innan vistarbandsins. Vistarbandið hélt allt undir lok nítjándu aldar og brast ekki fyrr en íslensk auðstétt varð til við sjávarsíðuna og krafðist þess að fá aðgengi að ódýru vinnuafli sveitanna. Lágstéttin hefur því gengið í gegnum þrjú tímabil frá landnámi: Þrælahald, vistarband, launavinna.

Launavinnan hefur þróast en ekki beint áfram eða upp á við; hún byrjaði sem réttindalaus sala á vinnustundum, þróaðist upp í sölu á lengri tímabilum með ábyrgð vinnukaupenda á kjörum launafólks en hefur á undanförnum árum verið að þróast aftur í átt að sölu einstakra tíma með minnkandi ábyrgð þeirra sem kaupa vinnustundirnar innan hins svokallaða hark-hagkerfis með starfsmannaleigum og öðru formi ábyrgðarlausra vinnukaupa. Það kerfi sem er að taka við af skipulögðum vinnumarkaði með launafólki og verkalýðsfélögum er líkara stöðu lausamanna innan vistarbanda, en vinnufólk sem höfðu eignast sem nam tíu kúgildum gat selt bændum vinnu sína án þess að gerast vinnuhjú.


Afkomendur þrælahaldara búa að eignum sem urðu til af efnahagslegu ráni.

En hvað um það; í Bandaríkjunum hefur verið sýnt fram á hvernig efnahagslegt rán þrælahaldsins erfðist til núlifandi fólks í formi eignaójöfnuðar. Afkomendur þrælahaldara búa að eignum sem urðu til af efnahagslegu ráni af vinnu þrælanna en afkomendur þrælanna skortir þær eignir sem auðvelda fólki lífsbaráttuna í grimmum samfélögum óhefts kapítalisma. Auðvitað eru dæmi um að afkomendur þrælahaldara hafi tapað eignum ætta sinna og dæmi þess að afkomendur þræla hafi auðgast; en það er ekkert vandamál að sjá samhengið af eignastöðu fólks í dag og hvoru megin þrælahaldsins forfeður og -mæður þeirra stóðu. Krafan um að afkomendum þrælanna verði bættur skaðinn af efnahagslegu ráni forfeðra og -mæðra þeirra nýtur vaxandi stuðnings í Bandaríkjunum, er til dæmis lifandi umræðuefni í forkosningum demókrata, eins og þessi frétt sýnir.
Nú þegar bændur eru farnir að selja jarðir sínar útlendum og innlendum auðkýfingum fyrir milljarða væri ekki úr vegi að reikna út hversu mikið af þeirri eign varð til af misnotkun á vinnuafli vinnufólksins, sem naut lítilla ef nokkurra réttinda í samfélagi bænda frá þjóðveldisöld og fram að nútímanum á Íslandi. Enginn bóndi hefði getað haldið jörð sinni innan þessa kerfis án þess að ræna fjölda fólks vinnu sinni; nýta vinnu þess en ekki greiða fyrir hana með öðru en því sem þrællinn fékk; skjól fyrir veðrum og nægan mat til að tóra vinnudaginn á enda. Að baki eigninni sem landeigendur selja í dag er því efnahagslegt rán á öðru fólki. Og eignaleysi margra ætta er að sama skapi afleiðing þessa ráns.

Við lifum innan kapítalísks kerfis þar sem eignarétturinn er þau mannréttindi sem ein njóta raunverulegrar verndar.

Við lifum innan kapítalísks kerfis þar sem eignarétturinn er þau mannréttindi sem ein njóta raunverulegrar verndar. Dómskerfið er að stærstu leyti smíðað til að vernda eignaréttinn. Eftir því sem við förum lengra inn blindgötu nýfrjálshyggjunnar, föllumst meira á einstaklingshyggjuna að baki þeirra trúarstefnu, verður við líklegri til að leita réttlætis innan dómskerfisins og þeirrar hugsunar sem það byggir á; að vernda eignarétt þeirra sem eiga. Það er ekki leið sem hægt er að mæla með, en ef fólk vill feta þá leið ætti það að opna hugann fyrir skaðabótum til þeirra sem enn bera afleiðingar af óréttlætanlegri kúgun fyrri tíma, sem að mörgu leyti er forsendan fyrir ójöfnuði dagsins í dag.
Í anda þeirra hugmynda ættu verkefnin að vera skaðabótakröfur vegna vistarbandsins og vegna takmarkaðs aðgengis að atvinnu, stöðum, heilbrigðisþjónustu, menntun, lóðakaupum og lánum vegna stjórnmálaskoðana, stéttar, kyns, kynhegðunar og uppruna á síðustu öld (og fram á vora daga). Fyrir nú utan að ýmsir sjúklingahópar, fatlað fólk og öryrkjar geta höfðað skaðabótamál vegna kerfisbundinnar vanrækslu, útilokunar og óþarfa fátæktar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: