Þrælahald stjórnar efnahagsmála
Sigurjón Magnús Egilsson:
Þetta er óhæfa. Framundan er svo kjaftshögg þeirra sem eru með húsnæðislánin með óverðtryggð lán með föstum vöxtum. Vaxtahækkanir eru framundan og þess fólks bíður örvænting. Ekkert minna.
Leiðari
Seðlabankinn er ekki í neinum feluleik með stöðu skuldugra heimila. Sem má sjá af lestri nýjasta heftist bankans um fjármálastöðugleika. Næst er að halda að öll sund séu okkur lokuð. Ævintýralega vond staða fólks og margra fyrirtækja er með ólíkindum. Best að gefa Seðlabankanum orðið:
„Vaxtastig er hátt og verðbólga mælist enn mikil þó hún hafi hjaðnað nokkuð á síðustu mánuðum. Greiðslubyrði lána hefur þyngst og er ásamt öðrum kostnaðarhækkunum farin að reyna á viðnámsþrótt margra heimila og fyrirtækja. Eins og fram kemur í umfjöllun um þróun skulda einkageirans hafa bæði heimili og fyrirtæki gripið til aðgerða til að lækka greiðslubyrði skulda, einkum með endurfjármögnun óverðtryggðra lána með nýjum verðtryggðum lánum. Algengt er meðal heimila að blanda lánsformum til að lækka greiðslubyrði en ná um leið fram áhættudreifingu og sem hagkvæmustu raunvaxtastigi. Heimilin hafa einnig nýtt önnur úrræði á borð við skilmálabreytingar, lengingu á lánstíma, þak á vaxtagreiðslur og tímabundinn greiðslufrest eða frystingu lána í þeim tilgangi að vinna gegn áhrifum af hærri greiðslubyrði lána.“
Þessi lestur er hreinn hryllingur. Höldum samt aðeins áfram:
„Heimili hafa einnig dregið úr neyslu en einkaneysla á fjórða ársfjórðungi í fyrra mældist 2,3% minni en á sama ársfjórðungi árið 2022 og var það annan fjórðunginn í röð sem slíkur samdráttur mældist.“
Þessar tilvitnanir eru eins og áður sagði sóttar í nýtt hefti Fjármálastöðugleika Seðlabankans. Þarna má lesa örvæntingu hins venjulega borgara á Íslandi. Einstaklinga og þeirra fyrirtækja sem hafa ekki aðgang að lánum í erlendum bönkum. Lýsing Seðlabankans er grátleg. Örvænting margra er yfirgengileg. Hagstjórnin á Íslandi gengur ekki upp.
Ekki er langt síðan að verðtryggð lán, Íslandslánin svokölluðu, þóttu algjör vanhæfa. Nú segir í opinberu riti Seðlabankans Íslands: “…bæði heimili og fyrirtæki gripið til aðgerða til að lækka greiðslubyrði skulda, einkum með endurfjármögnun óverðtryggðra lána með nýjum verðtryggðum lánum.“
Launafólk hefur tiplað á tánum dauðhrætt um að stugga við verðbólgunni.
Nóg er nú samt. Þrátt fyrir að þjóðin læðist um segir peningastefnunefnd Seðlabankans: „Verðbólguvæntingar eru einnig yfir markmiði sem gæti bent til þess að verðbólga verði áfram þrálát.“
Þetta er óhæfa. Framundan er svo kjaftshögg þeirra sem eru með húsnæðislánin með óverðtryggð lán með föstum vöxtum. Vaxtahækkanir eru framundan og þess fólks bíður örvænting. Ekkert minna.