Þorsteinn Sæmundsson spurði Bjarna Benediktsson um þá ákvörðun að samið var við breska auglýsingastofu vegna komandi markaðsátaks.
„Mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort við ætlum að byggja Ísland upp að nýju með því að flytja út störf, eins og verið er að gera í þessu tilfelli,“ sagði Þorsteinn.
Útboð fór fram á evrópska efnahagssvæðinu. Breka stofan var metin ögn hærra en íslensk. Sú breska þarf ekki að borga vask hér á landi, ólíkt þeim íslensku.
„Það munar um tuttugur prósentum þar á, ef ég skil rétt. Mig langar til að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort það sé virkilega ætlan þessarar ríkisstjórnar að fara að flytja út störf og gjaldeyri til að byggja Ísland upp að nýju. Mig langar í skýr svör,“ sagði Þorsteinn. Honum varð ekki að ósk sinni, Svör Bjarna voru ekki skýr. Hann sagði:
„Varðandi virðisaukaskattsmálið sérstaklega sem ég tek eftir að er í umræðunni er ekki rétt að í því felist einhvers konar samkeppnisröskun. Það er vegna þess að samkvæmt íslenskum lögum, virðisaukaskattslögum, er aðili sem ekki stundar atvinnustarfsemi hér á landi en óskar eftir þjónustu erlendra aðila, eins og t.d. auglýsingastofu í þessu tilviki, skyldugur til að skila virðisaukaskatti til ríkisins. Þetta er eins konar öfug virðisaukaskatts skyldu. Ef um væri að ræða kaup af innlendri auglýsingastofu myndi hún skila virðisaukaskattinum til ríkissjóðs en í þessu tilviki er það Íslandsstofa, verkkaupinn sjálfur, sem hefur skyldu samkvæmt gildandi virðisaukaskattslögum til að skila í ríkissjóð virðisaukaskatti af þjónustu erlenda aðilans. Með þessu er einmitt komið í veg fyrir að þessi samkeppnislega röskun, sem ég skil mjög vel að menn hafi áhyggjur af, komi fram,“ sagði Bjarni.
Þorsteinn Sæmundsson vildi vita meira:
„Það er eitt sem er ekki alveg skýrt í mínum huga eftir svarið og það er að hann segir að verkkaupi, þ.e. Íslandsstofa, standi skil á virðisaukaskattinum. Ef það er Íslandsstofa sem á að standa skil á honum hlýt ég að álykta sem svo að það sé ekki þessi erlendi aðili, sem er að vinna verkið, sem á að skila þessum vaski. Ég vil líka spyrja ráðherra hvort hann telji ástæðu til, þar sem einungis munaði 0,82% á einkunn þessarar erlendu stofu og þeirrar stofu íslenskrar sem næst komst, að fara aftur yfir þetta mál til að þarna sé alveg tvímælalaust réttur gerningur hafður í frammi vegna þess, eins og ég sagði áðan, að mér þykir það súrt og leitt ef við ætlum að byggja Ísland upp að nýju með því að flytja út störf og fjármuni.“
Bjarni kom í ræðustól og sagði:
„Ég verð aftur að vekja athygli á því að hérna er ekki um mál að ræða sem er beint á mínu forræði. Það er þó rétt sem háttvirtur þingmaður segir, og hefur komið fram opinberlega, að það virðist hafa munað mjög litlu á bjóðendum. Það sem ég hef þó heyrt um þetta er að sá aðilinn sem fékk flest stig í þessu mati hafi verið sá eini sem sérstaklega tók fram að mikil áhersla yrði lögð á það að láta sem mest af tilkostnaði við vinnu verkefnisins falla til innan lands, á Íslandi.“