Þorsteinn of heiðarlegur fyrir Sjálfstæðisflokkinn?
„Að öllu samanlögðu er niðurstaða mín sú að, ásamt klofningi, sé meginvandi Sjálfstæðisflokksins víðtækur trúverðugleikabrestur,“ skrifar Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Það er Marinó G. Njálsson sem skrifar.
„Þetta er það sem stór hluti þjóðarinnar hefur vitað lengi og margir, þar á meðal ég, hafa haldið fram í skrifum hér á Facebook og víðar. Þessi trúverðugleikabrestur hefur að mínu mati verið við lýði í áratugi eða svo lengi sem ég man eftir mér. Málið er að það er fyrst með tilkomu samfélagsmiðla, sem fólk hefur fengið vettvang til að tjá sig um það.
Formannstíð Bjarna verður alltaf markeruð af því að um hann og bestu vini hans gilda aðrar reglur en um almenning.
Mér fannst t.d. aldrei mikill trúverðugleiki í Sjálfstæðisflokki Davíðs Oddssonar, enda byggði hann bara á manninum sem lék Bubba kóng og tveimur skjöldum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sveitastjórnarkosningum á Seltjarnarnesi á 7. áratugnum. Davíð ræddi aldrei málefni eða gagnrýni á stefnu sína hvort heldur sem borgarstjóri eða forsætisráðherra, en óð strax í manninn sem vogaði sér að efast um heilindi Sjálfstæðisflokksins og Davíðs sjálfs. Hann bjó til smjörklípupólitíkina. Það getur verið að Flokkurinn hafi haft gott fylgi á þessum tíma, en líklega var vegna þess að fólki fannst „leikarinn“ skemmtilegur, ekki vegna þess að hann hefði svo mikið að segja.
Geir HH sagði aldrei neitt, sló úr einu í annað, laug að þjóðinni og sleikti sólann á skóm hrunverjanna.
Formannstíð Bjarna verður alltaf markeruð af því að um hann og bestu vini hans gilda aðrar reglur en um almenning. Hvort það er eign í skattaskjóli eða einkapartý sem sagt var opnun myndlistasýningar, þögn hans um Samherjamálið, að leggja niður stöðu skattrannsóknarstjóra, að styrkja ekki sérstakan saksóknara og síðar héraðssaksóknara nægilega til að hægt sé að rannsaka efnahagsbrot og svona mæti lengi telja. Hann leyfði Hönnu Birnu að vera ráðherra þrátt fyrir lekamál. Hann leyfði Sigríði að vera ráðherra þrátt fyrir að hún gengi gegn lögum. Verst er líklegast hvernig hann stýrði þingflokk sínum og sá til þess að mikilvæg mál í stjórnarsáttmála kæmust ekki í gegn. Ekki halda að þessi stjórnarandstaða í þingflokknum hafi ekki verið með samþykki Bjarna.
Í mínum augum hefur trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins verið við frostmark frá því að Þorsteinn Pálsson hætti sem formaður. Hann er síðasti formaður Sjálfstæðisflokksins sem gat mögulega fengið mig til að kjósa flokkinn. En hann var of heiðarlegur, var með of skýra stefnu og kannski var hann of saklaus/mikill einfeldningur til að halda að hann gæti stjórnað flokknum með þeim hætti sem hann gerði. Helsti veikleiki Þorsteins var að hann hafði ekki gengið hinn hefðbundna menntaveg Flokksins, heldur kom hann úr atvinnulífinu. (Fyrir þá sem ekki vita/muna, var hann fyrst blaðamaður á Mogganum, þá ritstjóri dagblaðsins Vísis og loks framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands áður en hann fór á þing árið 1983.) Hann kunni því ekki að gæta sérhagsmuna flokkseigendafélagsins, eins og ætlast var til af honum. Samt rétti hann föður núverandi formanns Síldarvinnslu ríkisins á silfurfati.
En það er gott, að núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins áttar sig á þessum skorti á trúverðugleika hjá flokknum. Verst að hann gerði það ekki sem fréttamaður.
Bara svo það komi fram, þá eru bæði Bjarni og Páll fjórmenningar mínir. Ég er málkunnugur Bjarna, en þekki Pál ekki neitt.