Þorskkvótinn hefur tvöfaldast – breytum lögunum svo fleiri komist að
Mikilvægt að breyta lögum strax svo þeir sömu fái ekki alla fyrirséða viðbót kvótans.
Oddný Harðardóttir minnti á frumvarp sem liggur í atvinnuveganefnd og hún telur brýnt að verð afgreitt sem fyrst, helst strax. Hið minnsta fyrir næsta fiskveiðiár.
„Frumvarpið fjallar um að bjóða út viðbótarþorskkvóta. Þorskstofninn hefur aldrei verið jafn stór og því líklegt að viðbótin verði þó nokkur. Ef við ætlum ekki að halda áfram að færa þeim sem hafa kvótann fyrir, alla viðbótina verðum við að breyta lögum um fiskveiðistjórn strax,“ sagði Oddný.
Oddný rifjaði upp að á síðustu fjórum fiskveiðiárum hafi þorskkvótinn aukist um 40 þúsund tonn og á síðstliðnum tíu árum um 100%, eða um 130 þúsund tonn. „Kvótakerfið í sjávarútvegi, þar sem einum var neitað um frjálsan aðgang að auðlindinni en öðrum heimilað á grundvelli sögu fortíðar, mun koma niður á framgangi greinarinnar til lengri tíma ef ekkert verður að gert. Vald þeirra sem fá úthlutað kvóta er töluvert og ákvarðanir þeirra geta varðað framtíð sjómanna, fiskvinnslufólks, fjölskyldna þeirra og heilu byggðarlaganna. Nú geta ungir og framsæknir sjómenn hafið rekstur sinn með því að kaupa kvóta dýru verði eða leigja af hinum sem fengið hafa kvóta á verði sem hefur verið samkvæmt Fiskistofu 150–200 kr. kílóið síðustu misserin. Til að jafna stöðu þeirra sem þegar eru í útgerð og þeirra sem hafa hug á að hefja útgerð þarf að gera úthlutun kvótanna sanngjarnari.“
Oddný nefndi Færeyinga sem fyrirmynd hvað þetta varðar. „Frændur okkar Færeyingar eru að þróa aðferð sem jafnaðarmenn hafa löngum talað fyrir, þ.e. að kvótanum verði ekki úthlutað öllum til þeirra sem fengu hann í fyrra heldur hafi allir jafnan rétt á að leigja hann af eiganda auðlindarinnar. Útboð á þorskkvóta í Færeyjum skilaði leiguverði um 60 kr. á kíló. Það er að minnsta kosti 60% afsláttur frá leiguverði útgerða hér á landi og yrði því mikil kjarabót fyrir þá sem nú leigja kvóta af útgerðinni.“