Býðst til að gefa Þórhildi Sunnu tvær af bókum sínum.
Jón Steinar Gunnlaugsson skrifaði Þoórhildi Sunnu Ævarsdóttur póst vegna orða hennar á Alþingi um skipan dómara. Þar kemur skipan Jóns Steinars sem dómara við Hæstarétt við sögu. Miðjan birti ræðu Þórhildar Sunnu. Jón Steinar segist engin viðbrögð hafa fengið við póstinum.
„Ég sé á netsíðunni Miðjunni grein eftir þig um skipan dómara, m.a. við Hæstarétt á liðnum árum.
Ég er auðvitað sammála því að ávallt beri að reyna að skipa hæfasta umsækjandann. Við ákvarðanir um þetta efni eigi að forðast flokkspólitísk áhrif, en einnig verði að reyna að hindra að valdið sé í höndum þeirra sem á fleti sitja fyrir. Yfirráð þeirra yfir þessu stuðlar að því að dómurinn verði einsleitur og kunningjavænn. Um slíkar ákvarðanir eru því miður gróf dæmi frá síðustu tímum.
Kannski er af tvennu illu sá kostur bestur að sá sem ber ábyrgð samkvæmt lögum (og stjórnarskrá) fari með ákvörðunarvaldið. Allavega gengur ekki að ábyrgðarlaus nefnd eða dómarar ákveði þetta. Ég hef í bók minni „Með lognið í fangið“ (Rvík 2017) gert grein fyrir hugmyndum mínum um hvernig þessu verði best fyrir komið, sjá 8. kafla bókarinnar. Gaman væri að heyra skoðun þína á þeim hugmyndum.
Þú gerir skipun mína í Hæstarétt á árinu 2004 að umræðuefni. Af því tilefni vil ég gerast svo djarfur að spyrja þig hvort þú hafir lesið bók mína „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014, og þá einkum 14. kafla hennar, þar sem finna má lýsingu á atburðarásinni í tengslum við þá skipan?
Fyrst þú stígur fram og tekur til máls um þessi þýðingarmiklu málefni, ættir þú að leggja þig fram um að kynna þér það sem um þau hefur verið fjallað á opinberum vettvangi. Ef þú hefur ekki aðgang að þessum tveimur bókum eftir mig sem ég vísa til að ofan, býðst ég til að gefa þér þær. Láttu mig bara vita hvert senda skuli.
Með góðri kveðju,
Jón Steinar Gunnlaugsson.