- Advertisement -

Þórhildur Sunna svarar Brynjari

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir svarar Brynjari af fullu afli:

„Hér tekur sérlegur sendiboði hræsninnar innan Sjálfstæðisflokksins slaginn fyrir undirmálsmanninn Eyþór Arnalds og þykist ætla að senda mér reikninginn fyrir afskriftum Samherja á kúlulánabraski oddvitans síns í Reykjavík. Fyrir utan hvað þetta er hlægileg og augljós tilraun til þess að afvegaleiða spillingarfnykinn sem enn einu sinni umlykur Sjálfstæðisflokkinn þá lýsir þessi pistill minnimáttarkenndinni sem hlýtur að hrjá Brynjar Níelsson á hverjum degi.

Brynjar fer hér mikinn um sjálfskipaða sérfræðinga í siðferðislegum málefnum og mannréttindum sem eiga að reka grímulausa pólitík í Evrópuráðsþinginu. Fyrir Brynjari er það auðvitað óhugsandi að ég hafi nokkuð gert til þess að verðskulda formennsku í einni af mikilvægustu nefndum Evrópuráðsþingsins. Það hlýtur auðvitað að vera erfitt fyrir mann eins og hann að fá ekki einu sinni eina formennsku í sinn hlut frá sínum flokki eftir alla æluna sem hann er búinn að kyngja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eina útrásin sem Brynjar fær er setan í forsætisnefnd þar sem hann útdeilir sinni sérlega sérstöku tegund af siðferðiskennd og mannréttindavernd. Við skulum ekki gleyma því að Brynjar hljóp í felur þegar forsætisnefnd fékk Klaustursmálið til meðferðar og sagði sig frá því á þeim grunni að hann hafi tjáð sig opinberlega um málið. Þetta gerði hann á grunni lagatúlkunar sem stenst enga skoðun – lögmaðurinn sjálfur – berandi fyrir sig að vanhæfisreglur stjórnsýsluréttar næðu yfir málsmeðferð forsætisnefndar Alþingis.

Sami Brynjar átti samt ekki í nokkrum vandræðum með að setja sig í siðapostulasætið gagnvart mér, þegar ég benti á að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur Friðriksson hefði svikið út fé. Kannski er Brynjar orðinn svo kalkaður að hann man ekki þegar hann sagði mér að skammast mín fyrir þessi ummæli daginn eftir að ég lét þau falla. Líklegra finnst mér þó að siðferði, sanngirni og jafnræði skipti Brynjar Nielsson engu máli, nema þá helst ef nota má þessi hugtök til þess að reyna að þagga konur sem tjá sig um fýluna í flokknum hans.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: