„Áhugaverð áskorun fram undan! Ég hef verið valin til þess að vinna skýrslu og þingsályktun um pólitíska fanga í Rússlandi fyrir Evrópuráðsþingið. Þetta var ákveðið á fjarfundi laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins í morgun,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
„Nefndin ákvað að velja mig til verksins vegna vinnu minnar við skýrslu um pólitíska fanga í Aserbaísjan sem lauk með samþykkt þingsályktunar í janúar síðastliðnum. Ég skal viðurkenna að ég þurfti að hugsa mig tvisvar um áður en ég tók tilnefningunni, en ákvað þó að taka að mér þetta mikilvæga verkefni.
Fram undan er ríkuleg rannsóknarvinna og vettvangsferð til Rússlands og vonandi góð og gefandi samskipti við yfirvöld og mannréttindasamtök í Rússlandi,“ segir í skrifum Þórhildar Sunna á Facebook.
„Konan sem ostasokkakarlarnir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hömuðust á með heimild forsætisráðherra hefur verið valin af Evrópuráðinu til að leiða rannsókn á mannréttindabrotum Rússlands. Það verður aldrei tekið af andverðleikasamfélaginu að þeir eru góðir í því strákarnir að halda aftur af þessu samfélagi enda eins og hýenur þegar kemur að því að tæta í sig fólk sem vill gera vel,“ skrifar Atli Þór Fanndal blaðamaður.
„Svona traust fær Sunna á alþjóðlegum vettvangi, af því að hún er vel að því verki komin. Fagleg fram í fingurgóma. Þess vegna óttuðust stjórnarþingmenn formennsku hennar í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og gerðu hvað sem þau gátu til þess að grafa undan vinnu hennar,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson og bætir við:
„Pælið í þessu, hún fær traust til þess að skoða málefni fanga í Rússlandi.“