Rithöfundurinn og fyrrum fótboltamaðurinn Þorgrímur Þráinsson lætur í sér heyra á Facebook-síðu sinni varðandi dauðaslysin sem átt hafa sér stað í Reynisfjöru á undanförnum árum.
Þorgrímur er ekki á sama máli og Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptamálaráðherra, en hún sagði nýverið í samtali við Morgunblaðið að hún sé á því að loka eigi Reynisfjöru alveg.
Þorgrímur er ekki bara ósammála Lilju um að loka eigi Reynisfjöru; hann er einfaldlega ekki spenntur fyrir að settar verði takmarkanir á heimsóknir ferðamanna í Reynisfjöru.
„Það verða alltaf til kjánar og jafnvel fávitar sem virða ekki viðvörunarmerkingar. Ég þekki það sjálfur! Eigum við að loka Vesturlandsvegi ef fleiri en þrjú bílslys verða þar á ári, eða fjögur, eða fimm?,“ spyr Þorgrímur og veltir einnig fyrir sér fleiri dæmum varðandi boð og bönn.
„Eigum við að banna áfengi ef það veldur fleiri en þúsund dauðsföllum árlega. Hvað erum við að gera til að koma í veg fyrir sjálfsvíg ungs fólks?
Eigum við að banna vanlíðan barna og foreldra sem ráða ekki við uppeldishlutverkið? Hugmyndin er ágæt en hana þarf að ræða ítarlega.“
Þorgrímur veltir því fyrir sér hvað það kosti „að hafa manneskju í fullu starfi við það að vakta fjöruna og hafa heimil á fólki? Sumir verða kjánar, eða fávitar alla ævi, og verða þá bara að taka afleiðingum gjörða sinna.“