Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferða- og nýsköpunarráðherra, nýtti hluta ræðu sinnar á Eldhúsdegi á Alþingi til að vera við Sósíalistaflokknum. Hún nafngreindi flokkinn aldrei en talaði um róttækt afl. Engum dylst um hvað hún var ræða.
Það er stórt skref fyrir hinn unga flokk að fá rými í ræðu ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Eins vildi hún meina að sú velsæld sem Íslendingar búa við, sé því helst Sjálfstæðisflokknumn að þakka.
Fréttin hefur verið uppfærð: Hluti ræðu Þórdísar:
Hugsjónir Sjálfstæðisflokksins í lykilhlutverki
„Ég tel að þetta skýri hvers vegna við skipum eitt af efstu sætunum þegar gerður er samanburður milli þjóða á eftirsóknarverðum árangri og lífsgæðum. Hér er mikið frelsi, mikil verðmætasköpun, mikill frumkvöðlakraftur, en líka mikill jöfnuður og mikill árangur af sterku velferðarkerfi. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að ég tel að hugsjónir Sjálfstæðisflokksins hafi hér leikið lykilhlutverk með sinni óvenjulegu, breiðu skírskotun til allra stétta og áherslu á að sameina fremur en að sundra.“
Moldviðri stjórnarandstöðunnar
„Þessa dagana reynir hluti stjórnarandstöðunnar að þyrla upp moldviðri vegna þeirrar skynsamlegu og eðlilegu tillögu að miða veiðigjald útgerðarfyrirtækja við nýjar upplýsingar um afkomu greinarinnar frekar en gamlar. Það eru vonbrigði að sumum virðist ómögulegt að komast úr skotgröfunum. Þáverandi sjávarútvegsráðherra studdi það markmið í viðtali við RÚV síðastliðið sumar að veiðigjöldin yrðu miðuð við nýrri upplýsingar en verið hefur, enda hefur þetta verið nokkuð almennt viðurkenndur galli á álagningunni. Núna tala hins vegar forsvarsmenn sama flokks eins og hér sé ægilegt hneyksli á ferðinni. Sá málflutningur stenst enga skoðun.“
Nálgun róttækra afla
„Jóna Sólveig Elínardóttir, fyrrverandi alþingismaður, skrifaði nýlega þarfa hugvekju um þá orðræðu sundrungar sem heyrist nú í vaxandi mæli. Ég gríp niður á nokkrum stöðum í grein hennar, með leyfi forseta, þar sem hún lýsir varhugaverðri nálgun sumra róttækra afla:
„Þau og við, við og hinir. … Þeir sem trúa ekki því sem „við“ trúum hljóta … annaðhvort að vera meðvirkir eða vondir. … Málamiðlanir eru af hinu vonda, þær þjóna ekki markmiðinu. … Já, fyrir áhugafólk um pólitíska orðræðugreiningu hljóta mörg viðvörunarljós að fara í gang.“
Góðir landsmenn. Það tekur langan tíma að byggja upp en skamman tíma að rífa niður. Okkur hefur tekist að byggja upp gott samfélag sem er í fremstu röð í heiminum. Það er staðreynd. Langtímahugsun og stefnufesta á grundvelli víðtækrar sáttar á milli ólíkra sjónarmiða er sú nálgun sem ein mun tryggja Íslandi áframhaldandi árangur á komandi árum, árangur fyrir okkur öll.“