Þórdís Lóa endurskipuleggi stjórnsýslu Reykjavíkur
„Hér staðfestir meirihluti borgarstjórnar að stokka þarf upp stjórnsýslu borgarinnar með róttækum hætti.“ Minnihlutinn fær enga aðkomu að vinnunni.
„Lagt er til að sett verði í gang vinna undir stjórn formanns borgarráðs við endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar,“ segir í samþykktri tillögu meirihlutans í Reykjavík.
„Endurskoðunin miði að því að einfalda skipulag og skipurit Reykjavíkurborgar en einnig að því að draga fram þau áhersluatriði sem mikilvægt er að horfa til við stjórnun og rekstur Reykjavíkurborgar. Þau atriði sem þar eru einkum undir eru á sviði fjármálastjórnunar, innkaupa, eftirlits og áhættustjórnunar, þjónustu og nýsköpunar, á sviði mannauðsmála og heilsueflingar, og síðast en ekki síst á sviði stjórnsýslu, þar á meðal á sviði stefnumótunar, gagnamála og upplýsingamiðlunar. Lagt er til að leitað verði til utanaðkomandi ráðgjafa sem sérfróðir eru á þessu sviði og að þessi vinna verði unnin í samráði við stjórnendur og starfsmenn eftir því sem við á. Afurð framangreindrar vinnu skal leggja fyrir borgarráð fyrir lok þessa árs í formi nýs skipurits, og því fylgi skilgreiningar á verkefnum einstakra eininga og þar með yfirlit yfir verkaskiptingu og umboð innan stjórnsýslunnar og hvernig samspili og samvinnu fagsviða og stoðsviða verði háttað. Jafnframt fylgi tillögur að innleiðingaráætlun nýs skipulags, litið er til þess að hægt sé að innleiða breytingar í nokkrum skrefum. Formaður borgarráðs stýrir verkefninu með aðstoð borgarritara,“ segir þar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ásamt Kolbrúnu Baldursdóttir bókuðu þegar málið var til meðferðar í borgarráði.
„Hér staðfestir meirihluti borgarstjórnar að stokka þarf upp stjórnsýslu borgarinnar með róttækum hætti. Það er fagnaðarefni. Mikilvægt er að stjórnsýslan sé bæði skilvirkari og vandaðri. Hér er hins lagt upp með það að formaður borgarráðs vinni þetta með borgarritara án nokkurrar aðkomu þeirra fjóra flokka sem sitja í minnihluta. Þá er óljóst hverjir aðrir verða til ráðgjafar, skerpa þyrfti á markmiðum breytinganna og hagræðingu. Mýmargir starfshópar hafa verið skipaðir án þess að hafa skilað niðurstöðu sem hefur verið framfylgt. Þá hefur talsvert skort á að farið sé eftir niðurstöðum frá aðilum á borð við innri endurskoðanda, umboðsmann Alþingis og annara varðandi það sem betur mætti fara í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.“
Vigdís Hauksdóttir bókaði einnig:
„Hér er lögð fram tillaga um endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Því er fagnað og endurskoðunin löngu orðin tímabær en slík skoðun þarf að fara fram utan Ráðhússins. Hér er minnt á tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins frá borgarstjórnarfundi hinn 4. september sl. sem hlaut ekki brautargengi. „Fenginn verður óháður/utanaðkomandi aðili til að gera úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur. Farið verður yfir allan kostnað, verkaskiptingu og skilvirkni í ört vaxandi kostnaði, tíðra mistaka, dóma, kvartana og annarra athugasemda sem komið hafa upp undanfarna mánuði gegn borginni.“