Þór þakkar Rósu: „Katrín Jakobsdóttir hefur gert sjálfa sig og VG að ógeðslegustu umskiptingum íslenskrar stjórnmálasögu“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifar um tíma sinn í VG:
„Árið 2003 tók ég fyrst sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar grænu framboði eftir að hafa tekið þátt í baráttu fyrir verndun Kárahnjúkasvæðisins. VG var eina umhverfisverndaraflið í íslenskri pólitík sem ég fann að ég gæti átt samleið með. Mér var svo seinna treyst fyrir mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna og varð svo þess heiður aðnjótandi að verða oddviti fjölmennasta kjördæmis landsins fyrir VG og taka sæti á Alþingi 2016 eftir varaþingmennsku 2013-2016. Í september 2020 gekk ég úr VG vegna ágreinings um eftirgjöf á stefnu hreyfingarinnar í umdeildu ríkisstjórnarsamstarfi. Sérstaklega í málefnum útlendinga og flóttafólks,“ segir Rósa Björk og bætir við:
„Það var verulega erfið, persónuleg ákvörðun. En það var líka erfitt að sjá mína félaga teygja sig of langt frá stefnu flokksins í mikilvægum mannréttindamálum. En í gær varð ég raunverulega og einlæglega sorgmædd yfir því hvert mín gamla hreyfing er komin þegar kemur að umhverfis-og náttúruvernd. Í ræðu minni spurði ég einfaldlega mína gömlu félaga: „Hvar eruð þið? Hvar er græna hjartað í hreyfingunni sem stofnuð var í kringum náttúru- og umhverfisvernd?“
Og ég viðurkenni að ég klökknaði því náttúruvernd er mér og fullt af fólki tilfinningamál. Og það er erfitt að sjá fyrrum félaga sína réttlæta eftirgjöf í svo mikilvægum málum sem náttúru – og umhverfisvernd er.
Svo var rammaáætlun samþykkt af meirihluta Alþingis með umdeildar ákvarðanir innanborðs. Meirihlutinn (fyrir utan Bjarna Jónsson í VG) felldi tillögu um að halda Kjalölduveitu og Héraðsvötnum áfram í verndarflokki og vilja frekar færa þau í biðflokk. Meirihluti þings vill ekki heldur færa Hvammsárvirkjun Þjórsár niður í biðflokk, líkt og hina tvo virkjanakosti Þjórsár.
Þingmeirihlutinn tók ákvarðanir um þetta og gekk gegn leiðbeiningum og ráðleggingum verkefnastjórnar 3.áfanga rammaáætlunarinnar; tækis sem er ætlað að tryggja viðkvæmt jafnvægi verndunar og nýtingar, en þó með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Meirihlutinn handvelur rök, sem eiga að styðja breytingar á hverjum virkjunarkosti fyrir sig, en afneitar því miður vísvitandi, greinilega, öllum vísindalegum og faglegum gögnum sem mæla fyrir verndarflokkun umræddra kosta. Og öll rök um orkuskipti eiga ekki við. Það er mikil miður. Og dapurleg er staða stjórnmálahreyfingarinnar sem hafði einu sinni grænna hjarta en í dag.“
Margir þakka Rósu Björk fyrir skrifin, og Þór Saari sendi góða kveðju til Rósu en vandaði VG og Katrínu Jakobsdóttur svo sannarlega ekki kveðjurnar:
„Takk fyrir baráttuna Rósa Björk. Það er ömurlegt að horfa upp á ógeðslegt siðleysi og svik VG í umhverfismálum, og raunar í öllum málum sem eru á stefnu flokksins. Katrín Jakobsdóttir hefur gert sjálfa sig og VG að ógeðslegustu umskiptingum íslenskrar stjórnmálasögu.