Þór Saari yfirgefur Pírata í fússi
Þór Saari var ekki endurkosinn í bankaráð Seðlabankans, þar sem hann hefur setið sem fulltrúi Pírata. Honum er misboðið.
„Ágætu Píratar. Þar sem þingflokkur Pírata hefur vikið frá þeirri óskráðu en mikilvægu reglu að skipa fulltrúa sína í ráð og nefndir á faglegum og þekkingarlegum forsendum og grunngildi Pírata virðast orðin lítið meira en skraut, þá hef ég ákveðið að yfirgefa þetta stefnulausa skip sem Pírataskútan er orðin. Þingflokknum hefur verið sent bréf þar að lútandi, sem þeim er frjálst að birta hér kjósi þeir svo. Þakka samstarfið sem hefur verið ánægjulegt en þó enn meira áhugavert,“ skrifar hann á Pírataspjallið á Facebook.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata skýrir sjónarmið þingflokksins: „Svona til frekari upplýsingar: Aðalmaður er Jacky Mallett, doktor í tölvunarfræði sem hefur unnið síðustu ár við greiningar á peningakerfum. Varamaður er Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði, sem hefur verið mjög gagnrýninn á peningastefnu Íslands og ýmislegt annað í hagstjórninni. Þetta er algjörlega framúrskarandi fólk að öllu leyti, og kann sitt fag svo ekki verði um villst.“
Fáir dagar eru síðan Birgitta Jónsdóttir yfirgaf Pírata og nú gerir Þór Saari það, en þau byrjuðu einmitt saman í stjórnmálum þegar þau voru kjörin á Alþingi 2009 fyrir Borgarahreyfinguna. Þá voru einnig kjörin Margrét Tryggvadóttir og Þráinn Bertelsson.