Það verður spennandi að sjá hvenær og hvernig viðskiptakálfarnir munu baula um Samherjamálið.
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Efnistök viðskiptakálfa dagblaðanna Frétta- og Morgunblaðsins líkjast oftar en ekki umfjöllun glanstímarita í útlöndum þar sem fræga og fallega fólkið vængjar sig.
Sagt er frá sigrum á markaði, hækkandi verði hlutabréfa og að fyrirtæki hafi hlotið eftirsóknarverð viðskiptaverðlaun. Allt væri þetta gott og blessað ef um væri að ræða meðlæti með raunverulegri gagnrýnni blaðamennsku um mál sem kalla á umfjöllun t.d. hver ástæðan er fyrir því að hlutabréf í Icelandair rjúka upp úr öllu valdi þrátt fyrir að fyrirtækið sé vart í rekstri og hver áhrifin verði á íslenskt efnahagslíf þegar eitt öflugasta fyrirtæki landsins Samherji verður komið á svarta lista lögregluyfirvalda í Noregi, Afríku og víðar í heim. Það verður spennandi að sjá hvenær og hvernig viðskiptakálfarnir munu baula um Samherjamálið.