Stjórnmál Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, bókuðu, á síðasta borgarstjórnarfundi, þar sem fjárhagsáæltun borgarinnar var til afgreiðslu, og sögðu kerfið belgjast út.
Í bókuninni segir: „Forgangsröðun er alvarlega ábótavant hjá meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar. Meirihluta þessara fjögurra flokka gengur lítið að taka ákvarðanir sem skipta raunverulegu máli en á gott með að taka ákvarðanir um hin ýmsu gæluverkefni.“
2015 ýtt yfir á 2016
Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur og segja nauðsynlegt að hefja vinnu við að taka á rekstri borgarinnar. „…árið 2015 hefur verið ýtt yfir á næsta ár þrátt fyrir að fyrir löngu væri ljóst að reksturinn árið 2015 væri í alvarlegri stöðu. Þjónustu við aldraða, fatlaða og börn er ógnað vegna sinnuleysis meirihlutans. Ekkert er fjárfest í breytingum og nauðsynlegum umbótaverkefnum sem fagfólk hefur í nokkur ár bent á að nauðsynleg séu.“
Kerfi borgarinnar belgist út
„Undir stjórn þessa meirihluta belgist kerfið út og það eina sem sést frá meirihlutanum eru óútfærðar niðurskurðarhugmyndir sem samræmast illa þörfum framtíðar. Engin pólitísk stefnumörkun fylgir þessum tillögum heldur er embættismannakerfinu falið að framfylgja þeim. Þó má lesa út úr greinargerð með 5 ára áætlun að meirihlutinn muni ganga svo langt þegar borgarsjóði þrýtur fé muni fjármögnunin byggast á arðgreiðslum frá fyrirtækjum í B-hluta og þá fyrst og fremst Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.